Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Björgun hafin í Skötufirði - fjölskylda var í bílnum

Mynd: Halla Ólafsdóttir / RÚV
Bíll með þremur innanborðs, manni, konu og barni, fór í sjóinn í Skötufirði í Ísafjarðardjúpi á Vestfjörðum á ellefta tímanum í morgun. Slysið er alvarlegt og var Samhæfingarmiðstöð almannavarna í Skógarhlíð virkjuð. Þvær þyrlur Landhelgisgæslunnar fóru á staðinn. Vegfarendur tilkynntu um slysið og er sagt að þeir hafi unnið þrekvirki. Flughált er á vegum á Vestfjörðum. Búið er að ná fólkinu úr bílnum.

Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn sagði í hádegisfréttum að aðstæður á vetvangi séu erfiðar, þó að veðrið sé skaplegt. Flughálka er á svæðinu og því gat björgunarfólk ekki keyrt hratt á staðinn. Fjölskylda var um borð í bílnum, maður, kona og barn. Rögnvaldur segir að vegfarendur, sem tilkynntu um slysið, hafi unnið þrekvirki og náð fólkinu út úr bílnum. Hann segir líklegast að fólkið verði flutt til Reykjavíkur með þyrlum Gæslunnar, sem eru báðar komnar á staðinn. Annars er allt í höndum lækna á staðnum. 

Halla Ólafsdóttir fréttamaður kom í Skötufjörð rétt um hádegisbil og segir hún mjög erfitt að keyra á staðinn, bæði vegna hálku og krapa á veginum. Skötufjörður er í um 70 kílómetra leið frá Ísafirði. Aðgerðir eru í fullum gangi nú klukkan hálf eitt. 

Viðtöl við Rögnvald og Höllu í hádegisfréttum er hægt að hlusta á í spilaranum með fréttinni. 

Veginum um Skötufjörð var lokað nú klukkan hálf eitt. 

Tilkynning frá lögreglunni kl. 12:16 

Tilkynning barst til lögreglunnar á Vestfjörðum klukkan 10:16 um alvarlegt umferðarslys á Djúpvegi í vestanverðum Skötufirði. Fjölmennt lið lögreglu, sjúkraflutninga og lækna, slökkviliðs og björgunarsveita var sent á vettvang auk þess sem tvær þyrlur Landhelgisgæsunnar voru kallaðar út og sendar á vettvang. Þá var samhæfingarstöð í Björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð virkjuð.

Í fyrstu upplýsingum kom fram að bifreið hefði farið út af veginum og í sjóinn og að þrennt hafi verið í bílnum. Vinna viðbragðsaðila er í gangi á vettvangi og báðar þyrlurnar komnar á staðinn. Búið er að ná fólkinu í land og komið í sjúkrabíla.

Samkvæmt upplýsingum er flughálka á veginum, lágskýjað og hægur vindur.

Mynd með færslu
 Mynd: Halla Ólafsdóttir - RÚV
sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV