Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Þar gildir sama fyrir Jón og séra Jón“

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Farsóttarnefnd Landspítala hefur fengið fjölmargar beiðnir frá ýmsum hópum innan spítalans um að þeir fái forgang í bólusetningu við kórónuveirunni. Forstjóri spítalans segir að ekki hafi verið orðið við slíkum beiðnum, virða verði þá forgangsröðun sem sett hafi verið fram sem byggi á því að þeir sem séu í mestri áhættu gangi fyrir.

Þetta kemur fram í pistli Páls Matthíassonar forstjóra Landspítala á vefsíðu spítalans.

„Þar gildir sama fyrir Jón og séra Jón og ég vil sérstaklega taka fram, vegna sögusagna um annað, að forstjóri og framkvæmdastjórn eða aðrir stjórnendur spítalans hafa ekki verið bólusettir fyrir COVID-19,“ skrifar Páll í pistli sínum. 

„Undantekningar frá þessu eru auðvitað þær ef fólk sinnir einnig beinum sjúklingasamskiptum í framlínu og tilheyrir þannig þegar skilgreindum forgangshópum. Við hin bíðum róleg þar til að okkur kemur, í þeirri vissu að framar okkur í röðinni er sannarlega fólk sem þarf meira á bólusetningu að halda.“