Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Svíar og Danir lýsa yfir óánægju með ákvörðun Pfizer

epa08907640 A healthcare worker displays a vial of the Pfizer/BioNtech COVID-19 vaccine during first vaccination at the Umberto I Hospital in Rome, Italy, 28 December 2020.  EPA-EFE/ANGELO CARCONI
 Mynd: EPA-EFE - Ansa
Heilbrigðisráðherrar Danmerkur, Finnlands, Svíþjóðar og Eystrasaltsríkjanna hafa skrifað bréf til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins þar sem óánægju er lýst með þá ákvörðun Pfizer að afhenda færri bóluefnaskammta næstu fjórar vikur en upphaflega stóð til. „Staðan er óásættanleg,“ segja ráðherrarnir í bréfi sínu. Yfirmaður Sóttvarnastofnunar Danmerkur er svekktur og pirraður eftir tíðindi dagsins.

Þetta kemur fram á vef DR.

„Þetta eru virkilega vondar fréttir,“ segir Henrik Ullum, forstjóri Sóttvarnastofnunar Danmerkur. Tölvupóstur hafi borist í morgun þar sem greint var frá þessari ákvörðun Pfizer. „Ef þetta stóð alltaf til af hverju fengum við ekki að vita af þessu fyrr? Við skiljum þetta ekki,“ hefur DR eftir Hullum.

Stjórnvöld í Danmörku hafa átt fund með forsvarsmönnum Pfizer í dag þar sem óskað var eftir skýrum svörum um hversu margir skammtar væru væntanlegir. Ullum treysti sér ekki til að segja hvað ákvörðun Pfizer hefði mikil áhrif á komu bóluefna til landsins.  

Þegar hafa 2,2 prósent dönsku þjóðarinnar verið bólusett með bóluefni Pfizer, rúmlega 129 þúsund manns. Allt efni sem borist hefur til þessa hefur verið notað því Danir taka ekki bóluefni frá til að bólusetja fólk öðru sinni. 

 

Í yfirlýsingu frá sænska heilbrigðisráðuneytinu kemur fram að Svíar vænti þess að fá 25 prósent færri skammta en þeir gerðu ráð fyrir.  Vefur SVT hefur eftir Richard Bergström, sem á sæti í samninganefnd framkvæmdastjórnar Evrópu, að framleiðsla Pfizer dragist saman um 15 prósent næstu fjórar vikur. 

Anders Tegnell, sóttvarnalæknir Svía, segir ákvörðun Pfizer breyta engu hvernig bólusetningum verði háttað í landinu. Halda eigi áfram á sömu braut og ekki geyma skammta. Norðmenn gera ráð fyrir að þeir fái 7.800 færri skammta í næstu viku.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sagði við fréttastofu í dag að Ísland fengi 3.000 skammta í næstu viku. „Við vitum ekki hvað gerist í framhaldi af því. Við verðum að sjá hvort það verður eitthvað skorið niður en ég vona svo sannarlega að það verði ekki.“

 

 

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, reyndi að lægja öldurnar á fréttamannafundi í dag. Hún sagðist hafa rætt við forstjóra lyfjafyrirtækisins í Evrópu og hann hefði fullvissað hana um að fyrirtækið myndi standa við skuldbindingar sínar á fyrsta ársfjórðungi.

Í tilkynningu frá Pfizer kemur fram að rekja megi breytinguna til uppfærslu hjá verksmiðju fyrirtækisins í Belgíu.  Til stendur að auka framleiðslugetuna úr 1,3 milljörðum skammta á ári í 2 milljarða skammta.  Verksmiðjan þurfi að standast ákveðnar gæðakröfur og fá leyfi frá stjórnvöldum.