Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Rýming fyrirskipuð á Seyðisfirði í varúðarskyni

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnadeild Ríkislögregl - RÚV
Lögreglustjórinn á Austurlandi, í samráði við Veðurstofu Íslands og ríkislögreglustjóra, hefur ákveðið að rýma nokkur svæði á Seyðisfirði í öryggisskyni vegna úrkomuspár. Búist er við talsverðri úrkomu sem skellur á skömmu eftir sjö í kvöld.

Varað er við því að bæti í úrhellið eftir miðnætti og ekki taki að draga úr ofankomunni fyrr en eftir klukkan sex annað kvöld. Rýma þarf öll íbúðarhús í jaðri byggðar, við Botnahlíð, Múlaveg 37 og Baugsveg 5. 

Sömuleiðis ber að rýma húsin við Austurveg 36, 38a, 40b, 42, 44, 44b, 46, 46b, 48, 50, 52, 54 og 56. Rýmingu skal lokið í kvöld kl. 22 en hún verður í gildi fram á sunnudagsmorgun en þá verður staðan metin að nýju.

Í tilkynningu Almannavarna segir að fyrirkomulag við rýmingu verði eftirfarandi og mikilvægt sé að allir sem yfirgefa bæinn í kjölfar beiðni um rýmingu skrái sig með eftirfarandi hætti:

„Mæting í fjöldahjálparstöðina (þjónustumiðstöð) í Herðubreið ef húsnæði vantar, akstur til Egilsstaða eða aðra aðstoð. Hringið í 1717 ef þið hafið annan samastað og ætlið að fara sjálf út úr bænum eða í annað húsnæði á Seyðisfirði.

Nauðsynlegt er að allir skrái sig um leið og húsnæði er rýmt. Fjöldahjálparstöðin verður opin yfir helgina eins og þörf þykir. Þjónustumiðstöð almannavarna verður áfram opin í Herðubreið á Seyðisfirði í næstu viku en einnig er hægt að senda inn fyrirspurnir á netfangið [email protected] og hringja í 839 9931 utan opnunartíma.“

Fylgst er grannt með hreyfingum í hlíðinni fyrir ofan bæinn,  en óvissa ríkir um stöðugleika jarðvegs í Botnabrún eftir skriðuföllin í desember, einkum í úrhelli eins og vofir yfir.

Í tilkynningu Almannavarna segir að reiknað sé með að rýming vegna skriðuhættu á Seyðisfirði verði á næstu vikum lögð til í ákveðnum skrefum eftir því sem meiri reynsla fæst á stöðugleika hlíðarinnar.

Þessi reynsla fáist með því að fylgjast með því hvernig jarðlög bregðast við úrkomu í kjölfar nýafstaðinnar skriðuhrinu og því er lögð til rýming við minni úrkomu til að byrja með en vænta megi að síðar verði. Þar segir einnig að rýming sem þegar er í gildi verði það áfram.