Ólöf Gerður Sigfúsdóttir skrifar:
Ég hafði úr nógu að velja þegar ég heimsótti Listasafnið á Akureyri á frostmiklum degi í desember síðastliðnum en safnið býður upp á hvorki meira né minna en sjö sýningar um þessar mundir. Ég hafði ekki komið í safnið í nokkurn tíma, eða ekki síðan það opnaði aftur eftir stækkun og endurbætur fyrir um tveimur árum, breytingar sem hafa skilað safninu glæsilegum sýningarrýmum og aðstöðu af bestu gerð. Í þessum pistli ætla ég einungis að fjalla um tvær af þessum sýningunum, yfirlitssýningar tveggja listamanna, sem í raun gætu ekki verið ólíkari. Þetta er annars vegar umfangsmikil sýning á verkum Þorvalds Þorsteinssonar (1960-2013), Lengi skal manninn reyna, og hins vegar lítil en engu að síður áhugaverð sýning á verkum Kristínar Katrínar Þórðardóttur Thoroddsen (1885-1959), undir yfirskriftinni KTh – málverk og ljósmyndir. Bæði eru þau Þorvaldur og Kristín látin og því um eins konar endurlit yfir ævistarf þeirra að ræða en með afar mismunandi formerkjum enda skipa þau eins ólíkan sess í sögunni og hægt er að hugsa sér: Þorvaldur með sín varanlegu og víðtæku áhrif en Kristín er ein af huldukonunum í íslenskri myndlist.
Lífshlaup hlutanna
Sýningin Kristín Th – málverk og ljósmyndir gerir listferli og lífshlaupi Kristínar nokkurrar Thoroddsen skil. Kristín fæddist inn í yfirstéttarfjölskyldu árið 1885 og hélt í endasleppt myndlistarnám til Edinborgar upp úr aldamótum 1900. Hún giftist héraðsdýralækni og settist að á Akureyri og sinnti upp frá því sínu hlutverki sem húsmóðir og uppalandi. Hún lagði myndlistardrauminn þó aldrei á hilluna og um fjörutíu árum síðar tók hún aftur til við myndlistina eftir að þau hjónin slitu samvistum og hélt þá utan til listnáms í New York, auk þess sem hún dvaldi langdvölum í Bretlandi á ýmsum tímabilum. Á fjórða áratugnum fór hún svo til Indlands með skipi ásamt yngstu dóttur sinni, og kynnst þar guðspeki, sem átti eftir að hafa miki áhrif á hana.
Sýningin samanstendur af nokkrum málverkum og tveimur Maríumyndum, sem Kristín gaf Akureyrarkirkju árið 1942. Þetta eru aðallega kyrralífsmyndir og blómamyndir sem málaðar eru á blindramma og virðast í fljótu bragði ekki bera neina sérstaka sögn með sér. Þegar hið óvenjulega lífshlaup Kristínar er skoðað nánar afhjúpast hins vegar afar áhugaverð saga sem, í samhengi við samfélagslegar aðstæður, alþjóðlega strauma í myndlist og verkin sjálf, skapar frásögn sem vert er að skoða nánar. Verk Kristínar hafa aldrei verið sýnd á opinberu safni og í raun hefur hún ekki verið talin hluti af listasögunni fyrr en nú með þessari sýningu í Listasafninu á Akureyri. Þessi frásögn er mótuð af sýningarstjóranum, Þóru Sigurðardóttur, sem er barnabarn Kristínar auk þess að vera sjálf myndlistarmaður. Með því að setja verkin saman í eitt sýningarrými og raða þeim upp eftir ákveðinni fagurfræði og lógík, gefur Þóra okkur innsýn í styrk Kristínar í málverkinu og þróun hennar sem myndlistarkonu samhliða því að segja ævisögu ömmu sinnar. Auk málverkanna eru á sýningunni ljósmyndir úr ferðum Kristínar til Austurlanda, úr fjölskyldualbúmi sem varðveist hefur í þrjár kynslóðir. Þessi hluti sýningarinnar skapar sérlega áhugaverða tengingu við óvenjulegt lífshlaup þessarar merku konu og setur tóninn fyrir persónulega umgjörð sýningarinnar. Þannig eru öll verkin fyrir utan Maríumyndirnar tvær í eigu afkomenda Kristínar en Þóra safnaði þeim saman fyrir sýninguna. Aðrar heimildir sem hún vinnur með eru munnlegar frásagnir og persónulegt minni, ljósmyndir, skjöl og bréf Kristínar til barna sinna. Úr þessu verður til mikilvæg frumrannsókn á framlagi Kristínar til listarinnar auk þess sem saga nærsamfélagsins á Akureyri er sögð. Þessum rannsóknum er miðlað á varanlegan hátt, með veglegri og vandaðri útgáfu, í greinum eftir Þóru sjálfa, Helgu Kress bókmenntafræðing, Hrafnhildi Schram listfræðing og Sigríði Matthíasdóttur sagnfræðing.
Það sem greip mig sérstaklega á þessari sýningu var efnisleiki málverkanna, sem er fyrirferðarmikill fyrir þá staðreynd að verkin eru snjáð eða löskuð hér og þar, brest hefur upp á eitt og eitt horn og ramminn ekki alltaf fullkominn. Fyrir vikið sprettur ævisaga verkanna fram og lífshlaup þeirra, rétt eins og Kristínar sjálfrar, verður tilfinnanlegt því hér eru ummerki tímans sýnileg og hafa fengið að vinna óáreitt á því efni sem verkin eru úr. Þannig er fjölskyldusagan greipt í verkin sjálf, nokkuð sem vekur sterk hrif í samhengi opinbers listasafns þar sem slík ummerki eru vanalega afmáð af forvörðum sem vinna að því að meta reglulega ástand verka og gera við þau eftir þörfum. Þetta gerir yfirbragð sýningarinnar sérstaklega áhugavert og ára verkanna verður enn sterkari þegar þau eru lesin saman við ævisögu Kristínar sjálfrar. Í þessu felst einmitt gildi sýningarstjórnunar sem aðferðar við að skrásetja og skapa nýja túlkun, nýja þekkingu, sem safnið svo hýsir og varðveitir og í raun sviðsetur að einhverju leyti.
Mörk hins raunverulega og hins sviðsetta
Það er freistandi velta áfram fyrir sér safnasamhenginu í verkum Þorvalds Þorsteinssonar en hlutverk opinberra stofnana, eins og safna og skóla, voru honum hugleikin. Nú er uppi yfirgripsmikil og afar skemmtileg sýningin á verkum Þorvalds, Lengi skal manninn reyna, þessa áhrifamikla listamanns sem hefði orðið sextugur á síðasta ári. Ólíkt Kristínu, þarf Þorvald vart að kynna. Framlag hans til myndlistarinnar er löngu orðin föst stærð í íslenskri listasögu. Auk þess að vinna ötullega að myndlistinni var hann afkastamikill rithöfundur, leikritaskáld, ljóðskáld, tónskáld og kennari, eða mentor eins og hann vildi kalla það, en hann nýtti sér flesta miðla í listsköpun sinni og var óhræddur við að stíga þvert yfr landamæri listgreina.