Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Pfizer neyðist til að draga úr afhendingu bóluefnis

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir - RÚV
Lyfjaframleiðandinn Pfizer hefur neyðst til að draga aðeins úr framleiðslu á bóluefni og því fækkar þeim skömmtum sem Evrópulönd áttu að fá á næstunni. Þetta er rakið til breytinga á framleiðslunni og þegar þeim verður lokið áætlar fyrirtækið að það geti aukið framleiðsluna úr 1,3 milljörðum skammta í 2 milljarða skammta á ári. Breytingin bitnar væntanlega einnig á Íslandi.

Fram kemur í norskum miðlum að þessar breytingar þýði að Norðmenn fái 7.800 færri skammta í næstu viku. Þeir áttu að fá 43.875 en skammtarnir verða 36.075. 

Von var á 3.000 skömmtum af Pfizer-bóluefninu til Íslands í næstu viku. Miðað við að Ísland fái 6,8 prósent af bóluefni Norðmanna má gróflega áætla að bóluefnaskömmtunum fækki um 500 og skammtarnir verða því 2.500.

Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar Íslands, hafði ekki heyrt af því að skammtarnir frá Pfizer í næstu viku yrðu færri en gert hafði verið ráð fyrir. 

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV