Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Guðmundur Felix vaknaður eftir handleggjaágræðslu

Mynd: RÚV / RÚV
Guðmundur Felix Grétarsson er vaknaður eftir hálfs sólarhrings aðgerð þar sem græddir voru á hann handleggir og axlir. Eiginkona hans segir að þau hafi fengið símtal tveimur dögum fyrir aðgerðina um að hugsanlega væri handleggjagafi fundinn. Læknarnir séu afar ánægðir með hvernig aðgerðin tókst.

Guðmundur Felix varð á miðvikudag fyrstur í heiminum til að fá á sig grædda báða handleggi og axlir. Aðgerðin tók tólf klukkutíma og var á sjúkrahúsi í Lyon í Frakklandi en Guðmundur Felix var á biðliðsta eftir aðgerðinni í rúm fimm ár. Á mánudag fékk hann símtal frá spítalanum um hugsanlegan líffæragjafa og á þriðjudeginum fékk hann samþykki fyrir gjöfinni. Aðgerðin hófst svo klukkan tíu morguninn eftir og stóð fram yfir miðnætti. 

Sylwia Grétarsson Nowakowska, eiginkona Guðmundar Felix, segir að læknarnir séu afar ánægðir með aðgerðina og hún hafi gengið að óskum. Þetta sé þó bara upphafið. Felix hafi fyrst rumskað í gær og rétt áður en fréttastofa náði tali af Sylwiu í morgun hafði hún spjallað við hann í síma.

„Honum heilsast vel. Ég var rétt í þessu að fá ljósmynd frá læknunum af öllum líkama Guðmundar Felix. Þó að honum líði kannski ekki líkamlega vel núna, þá er hann mjög hamingjusamur,“ segir Sylwia.

Honum er haldið algerlega í einangrun. Hann er afar bólginn og er á sterkum verkjalyfjum en það sé alveg í samræmi við það sem læknar hafi búist við. Guðmundur Felix megi ekki hreyfa sig og hafi því ekki sé nýju fingurneglurnar.