Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Fagna hertum reglum en sumir efast um lögmætið

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Forsvarsmenn Flokks fólksins, Samfylkingar og Pírata, eru ánægðir með að gripið hafi verið til hertra aðgerða á landamærunum. Sumir hafa þó áhyggjur af lögmæti aðgerðanna. Heilbrigðisráðherra féllst í dag á tillögu sóttvarnalæknis um að skikka alla sem koma til landsins í tvöfalda skimun og afnema sóttkvíarmöguleikann.

 

Inga hefði viljað loka landamærunum

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, er sátt við nýja reglugerð heilbrigðisráðherra. „Við erum meira en sátt, bara ofsalega glöð, en ég hefði viljað ganga mun lengra og gera það strax, ég hefði viljað loka landamærunum fyrir allri umferð nema þeirri allra nauðsynlegustu en ég vona að þetta komi í veg fyrir að við fáum fjórðu bylgju faraldursins.“

Velferðarnefnd hyggst kalla eftir upplýsingum

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingar og formaður velferðarnefndar, fagnar því að heilbrigðisráðherra hafi fallist á tillögur sóttvarnalæknis en furðar sig á viðsnúningnum hjá stjórnvöldum sem fyrir nokkrum dögum höfðu áhyggjur af því að tillögur Þórólfs stæðust ekki lög. Það hafi verið álit flestra lögspekinga að það yrði að styðja við ákvarðanirnar með skýrri lagasetningu. „Það skiptir máli að framkvæmdavaldið, sem er þá ráðherrann, sé ekki að fara í aðgerðir umfram heimildir, umfram lög, þetta snýst um þetta meðalhóf, þetta snýst um að hafa fast land undir fótum. “

Hún dreifði í dag frumvarpi á Alþingi þar sem hún lagði til að bráðabirgðaákvæði yrði bætt inn í sóttvarnalög, í þeim tilgangi að treysta lagastoðirnar fyrir aðgerðunum. Þá segir hún Velferðarnefnd ætla að kalla eftir upplýsingum frá heilbrigðisráðuneytinu, á mánudag, um hvers vegna ráðherra snerist hugur varðandi lögmæti aðgerðanna.

Rökrétt málamiðlun

Sara Elísa Þórðardóttir, varaþingmaður Pírata, segir að reglugerðin hafi verið rökrétt málamiðlun, ríkisstjórnin hafi dregið lappirnar en sé nú að bjarga sér fyrir horn. Hún segir Pírata vilja vera vissa um að frumvarp til breytinga á sóttvarnalögum verði ekki drifið með hraði í gegnum þingið án vandlegrar umræðu enda sé flokkurinn alfarið á móti því að heilbrigðisráðherra fái heimild til að setja útgöngubann eða skylda fólk í bólusetningu. 

>>