Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Engin loðna veiðst í tvö ár

15.01.2021 - 12:26
Mynd með færslu
 Mynd: Sighvatur Jónsson - RÚV
Íslensk fiskiskip veiddu rúmlega milljón tonn af fiski í fyrra og var heildaraflinn um 3% minni en árið 2019, samdrátturinn skrifast fyrst og fremst á minni botnfisksafla. Þetta kemur fram í bráðabirgðatölum frá Hagstofunni.

Rúmlega helmingur aflans var uppsjávarafli, einkum kolmunni, makríll og síld en engin loðna hefur veiðst í tvö ár. Um fjórði hver fiskur sem veiddur var á miðunum var þorskur, og 150 þúsund tonn voru veidd af öðrum botnfiskum; ýsu, ufsa og karfa. Skelfisksafli dróst saman um helming en flatfisksafli var óbreyttur. 

Magnvísitala landaðs afla í desember er 61,8 sem bendir til þess að aflaverðmæti verði 10,8% meira en í desember 2019.

Bráðabirgðatölur frá Fiskistofu

Upplýsingarnar sem koma fram í tilkynningu Hagstofunnar eru bráðabirgðatölur, þær byggja á upplýsingum sem Fiskistofa fær frá löndunarhöfnum innanlands, útflytjendum afla og umboðsmönnum erlendis. 
 

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV