Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bjarni segir að reglugerð snerti takmarkað viðfangsefni

Mynd: Skjáskot / RÚV
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra um að skylda alla flugfarþega í tvöfalda skimun með fimm daga sóttkví á milli sé afskaplega takmarkað viðfangsefni.

Bjarni álítur að nýju ráðstafanirnar eigi aðeins við um þann hluta þess eins prósents flugfarþega sem eru með virkt smit og ætli ekki að virða reglur um sóttkví. Því sé um ákveðna áhættu að ræða en ekki umtalsverða að hans mati, 99% þeirra sem fari um flugvöllinn velji að fara í skimun.

Svandís Svavarsdóttir sagði fyrr í dag í samtali við fréttastofu að reglugerðin væri sett til að bregðast við örum vexti kórónuveirusmita í löndunum í kringum okkur og að margir sem valið hafi fjórtán daga sóttkví á landamærunum hafi ekki virt hana.

Bjarni segir að viðfangsefnið sé því afmarkað. Sóttvarnayfirvöld leggi þá áherslu á að það sé mikilvægt í ljósi þróunar á landamærunum og vegna stöðunnar í öðrum löndum. „Við þurfum ekki að gera of mikið úr þessari ráðstöfun, það er skynsamlegt að bregðast við og enginn ágreiningur um það í ríkisstjórninni,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.