Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Barnabótahneyksli skekur hollensku stjórnina

15.01.2021 - 05:27
epa08937879 Dutch Prime Minister Mark Rutte in his office in The Hague, The Netherlands, 14 January 2021. The future of his government is under discussion after the damning report on the benefits affair. Hundreds of parents who were wrongly accused of fraud had to pay back up to thousands of euros to the tax authorities.  EPA-EFE/REMKO DE WAAL
 Mynd: EPA-EFE - ANP
Hollenska ríkisstjórnin ákveður það á fundi sínum í dag hvort hún starfi áfram. Hneykslismál er varðar barnabótakerfi landsins skekur stjórnina, og varð til þess að leiðtogi stjórnarandstöðuflokks sagði af sér.

Að sögn Guardian sökuðu skattayfirvöld þúsundir foreldra ranglega um að svindla á barnabótakerfinu. Þeim var gert að endurgreiða ríkinu ofreiknaðar bætur, sem varð til þess að margar fjölskyldur steyptust í skuldir. Lodewijk Asscher, leiðtogi Verkamannaflokksins og félagsmálaráðherra síðustu ríkisstjórnar, sagði af sér vegna málsins í gær. Hann þvertók þó fyrir að hafa vitað af gjörðum skattayfirvalda, en viðurkenndi að gallað kerfið hafi gert ríkisstjórnina að óvini þjóðarinnar.

Mark Rutte forsætisráðherra hefur greint frá andstöðu sinni við að slíta núverandi stjórnarsamstarfi. Hann segir Holland þurfa stöðugleika á meðan baráttan við kórónuveirufaraldurinn er háð. Hann kvaðst þó ekki geta útilokað neitt.

Stjórnarslit framar vantrausti

Ríkisstjórn Ruttes er mynduð af fjórum flokkum. Stjórnarflokkarnir eru alls ekki sammála um hvernig taka skuli á hneykslismálinu. Guardian segir þó líkur á að einhverjir þeirra vilji helst slíta samstarfinu sem fyrst, í stað þess að takast á við vantrauststillögu á hollenska þinginu á þriðjudag. Greiða á atkvæði um vantraust eftir umræður um skýrslu þingnefndar um hneykslismálið.

Um 20 þúsund fjölskyldur

Samkvæmt niðurstöðum nefndarinnar brutu skattayfirvöld grundvallarreglur og -lög. Rannsóknir á meintu svindli byggðu ekki á neinu öðru en kerfisvillu. Málið nær allt aftur til ársins 2012 og varðar um 20 þúsund fjölskyldur. Þeim var gert að greiða til baka ofgreiddar barnabætur, og var neitað um möguleikann á að áfrýja úrskurði yfirvalda. Einhverjar fjölskyldur voru á barmi gjaldþrots og aðrar þurftu að flytja eftir að hafa þurft að greiða tugi þúsunda evra vegna meintra svika.

Í skýrslu þingnefndarinnar segir að ráðherrar, þingmenn, embættismenn og dómarar beri ábyrgð á því hvernig fór. Lögð er áhersla á að koma í veg fyrir að nokkuð þessu líkt geti komið fyrir aftur. Ríkisstjórnin hefur beðist opinberlega afsökunar. Hver fjölskylda fær um 30 þúsund evrur í skaðabætur, jafnvirði um 4,7 milljóna króna.

Stutt til kosninga

Skattayfirvöld voru einnig sökuð um rasisma. Þau viðurkenndu að ellefu þúsund fjölskyldur þar sem foreldrarnir voru ekki af sama þjóðerni hafi verið tekin sérstaklega fyrir.

Ef ríkisstjórnin leysist upp í dag þarf hún þó að sitja til bráðabirgða þar til ný stjórn er mynduð. Aðeins eru um tveir mánuðir til næstu þingkosninga í Hollandi, og er staða flokks Rutte sterk samkvæmt könnunum.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV