Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Allir skyldaðir í tvöfalda skimun strax í dag

Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra gefur í dag út reglugerð sem skyldar alla sem koma til landsins í tvöfalda skimun með fimm daga sóttkví á milli. Þetta segir hún gert í ljósi þess að veiran er í vexti í löndunum í kringum okkur og að margir sem valið hafa 14 daga sóttkví á landamærunum hafi ekki virt hana.

Svandís fellst þar með á tillögur Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis. 

Reglugerðin tekur gildi í dag. „Um leið og reglugerðin hefur verið birt hefur fólk ekki val á landamærunum,“ segir Svandís í samtali við fréttastofu. Ekki verður heldur hægt að velja um að fara í sóttkví í farsóttarhúsi. „Við sjáum að það hafa verið brot á sóttvarnareglum á landamærum, fólk sem hefur valið 14 daga sóttkví hefur rofið þá sóttkví. Því miður virkaði ekki að fella niður gjaldtökuna og í ljósi þess hversu alvarleg staðan er í löndunum í kringum okkur og það eru að koma alvarlegri afbrigði inn í ríkari mæli, þá taldi ég í samráði við mitt ráðuneyti og sóttvarnalækni að það væri full ástæða til að grípa til þessa úrræðis.“

Fólk með mótefnapróf undanskilið

Í frétt á vef ráðuneytisins er farið nánar yfir nýja fyrirkomulagið. Þar kemur fram að í algerum undantekningartilvikum verði áfram hægt að velja sóttkví í stað sýnatöku, svo sem af læknisfræðilegum ástæðum. Þá séu þeir sem geta framvísað gildu vottorði um að þeir hafi fengið veiruna og myndað mótefni, eða verið bólusettir, sleppt skimuninni. 

Telur skimunina nú standast lög

Áður hafði heilbrigðisráðherra haldið því fram að ekki væri hægt að fallast á tillögu sóttvarnalæknis um tvöfalda skimun þar sem vafi léki á um að það stæðist lög að skikka fólk í skimun. Hvað breyttist? „Það sem breyttist í raun og veru er að við þurfum að horfast í augu við það hversu alvarleg staðan er og í ljósi þess telur mitt ráðuneyti að þetta sé undirbyggt af lögum. Auðvitað eru breytingar á sóttvarnalögum líka til meðferðar á Alþingi og ég vonast til þess að það klárist fljótt og vel.“

Neyðarúrræði

Þórólfur sendi Svandísi minnisblað með tillögum sínum um skimunarskyldu fyrir rúmri viku. Svandís segist hafa þurft tíma til að fara yfir stöðuna og gefa út reglugerð með nýjum landamærareglum. „Við vorum að fara í saumana á lögmætinu og meta aðstæður og við þurftum að gera það en í ljósi þess að þrýstingurinn er í rauninni að aukast á landamæri með fjölgandi smitum þar þá töldum við nauðsynlegt að grípa til þessa neyðarúrræðis sem gengur í gildi strax í dag.“ 

Gildir út apríl

Þetta nýja fyrirkomulag á landamærunum verður í gildi til 1. maí. Á vef ráðuneytisins segir að þá eigi að taka varfærin skref til afléttingar. Þau muni taka mið af ástandi faraldursins á brottfararstað komufarþega. Þetta var ákveðið á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun.