Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

4x4 segir sig úr Landvernd vegna harðlínustefnu

15.01.2021 - 06:47
Flugmynd af Tungnafellsjökli 2015
 Mynd: Einar Rafnsson - RÚV
Ferðaklúbburinn 4x4 hefur sagt sig úr Landvernd. Ástæðan er sögð stefna Landverndar sem að mati klúbbsins hefur gengið of langt í öllum sínum gjörðum og gengið þvert gegn hagsmunum Landverndar. Stefnan hafi undanfarin ár verið öfgakennd og markast af harðlínu og er stefna Landverndar um að loka skuli ökuleið um Vonarskarð sérstaklega tiltekin.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu á vefsíðu Ferðaklúbbsins 4x4.

Þar segir að stefna Landverndar sé nú farin langt út fyrir svið náttúruverndar að mati ferðaklúbbsins. 

„Því hefur stjórn Ferðaklúbbsins 4×4 ákveðið að vegna stefnu Landverndar  gagnvart málefnum tengt hagsmunum njótenda og notenda á hálendi Íslands, að segja sig úr félaginu og hætta öllum stuðningi við það.  Einnig segjum við okkur úr öllum nefndum og óskum eftir því að nafn okkar verði fjarlægt sem félagsaðila innan samtakanna,“ segir í yfirlýsingunni.