Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

200 falla af bótum 2021 í Reykjanesbæ

15.01.2021 - 16:52
Mynd: Guðmundur Bergkvist / rúv
Vinnumálastofnun spáir því að almennt atvinnuleysi aukist í janúar og verði tæplega 12 af hundraði. Í lok desember mældist atvinnuleysið 10,7%. Mesta atvinnuleysið er sem fyrr á Suðurnesjum þar sem atvinnuleysið meðal kvenna var yfir 26%. Bæjarstjórinn í Reykjanesbæ vill að bótatímabilið verði lengt. Það stefni í að um 200 manns í bænum falli af bótum á þessu ári.

Yfir 26 þúsund á bótum

Vinnumálastofnun birti í dag tölur yfir atvinnuleysi í desember. Almennt atvinnuleysi eykst lítillega á landsvísu, í 10,7% en var 10,6 í nóvember. Þetta þýðir að rösklega 21 þúsund manns voru án vinnu í lok ársins. Rúmlega fimm þúsund einstaklingar voru á hlutabótum. Ef sá hópur er tekinn með er heildaratvinnuleysið 12,1%. Samtals eru yfir 26.400 manns alveg án atvinnu eða að hluta. 

Yfir 400 þúsund manns hafa verið án vinnu í meira en eitt ár og um 6600 án vinnu í 6 til 12 mánuði. Samtals hafa því tæplega 11 þúsund verið án vinnu lengur en hálft ár. Sambærileg tala í desember 2019 var 3800 sem þýðir að nærri þrisvar sinnum fleiri glíma við langtímaatvinnuleysi nú eða 285% fleiri en 2019.

Hlutfall erlendra ríkisborgara á atvinnuleysisskrá er um 41%. Það þýðir að yfir 8700 erlendir ríkisborgarar voru án atvinnu í lok ársins. Það samsvarar 24% atvinnuleysis meðal erlendra ríkisborgara á Íslandi.

Atvinnuleysið er mest á  Suðurnesjum. Yfir 26% meðal kvenna og  rúmlega 21% meðal karla. Það er næst mest er það á höfuðborgarsvæðinu. Karla í meirihluta með yfir 12% atvinnuleysi og konur 11,5.
 

Erfitt ár

Atvinnuleysið hefur leikið Suðurnesjamenn grátt og ekki síst íbúa Reykjanesbæjar þar sem atvinnuleysið er nú 26%. Þetta hefur verið erfitt ár.

„Það er vægt til orða tekið,“ segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ. Hann segir að þetta hafi verið mjög erfitt. Atvinnuleysið hafi byrjað að aukast eftir fall WOW air í mars 2019. Á síðasta ári hafi flugvöllurinn nánast verið lokaður en hann sé um 40% af öllu atvinnulífinu. Kjartan Már segist vera bjartsýnn að eðlisfari.

„Það er verið að vinna að ýmsum atvinnumálum sem vonandi raungerast og skapa okkur tækifæri á ýmsum sviðum. Svo bindum við vonir við að alþjóðaflugvöllurinn nái sér á strik.“

Kannski erfiðara en síðasta ár

 Kjartan segir að það muni þó taka lengri tíma fyrir sveitarfélagið að rétta úr kútnum en menn vonuðu.

„2021 verður að minnast kosti jafn erfitt ef ekki erfiðara en síðasta ár. Við þurfum að gera ráð fyrir því að við verðum komin á eitthvert gott ról 2023 eða 24. Að þá verðum við búin að rétta úr kútnum. Við erum samt á fullu. Reykjanesbær stendur ágætlega eftir mörg erfið ár. Við höfum borið gæfu til að nýta hér gott tímabil á undan, frá 2013 og til dagsins í dag. Náðum að nýta það til að styrkja stöðu sveitarfélagsins. Við erum þannig séð ágætlega í stakk búin og getum tekið á okkur þetta áfall. Við erum á fullu í framkvæmdum, erum að bæta við okkur fólki og fara í verkefni sem annars hefðu beðið. Svo verðum við bara að trúa því og treysta að við náum tökum á þessari veiru og að þetta fari allt að snúast okkur í hag.“

Um 200 af bótum- vilja lengja bótatímabilið

Atvinnuleysistímabilið er 30 mánuðir svo fólk getur verið á atvinnuleysisskrá í tvö og hálft ár. Eftir það fellur það af bótum og eina úrræðið er að þiggja fjárhagsaðstoð frá sveitarfélaginu. Kjartan segir að á þessu ári muni hópur fólks falla af bótum.

„Það er allt sem bendir til þess að það séu um 200 einstaklingar sem muni falla út af bótum á þessu nýbyrjaða ári, 2021. Þess vegna höfum við verið að tala mjög fyrir því við þingmenn og aðra að það þurfi að lengja tímabil atvinnuleysisbóta sem í dag er 30 mánuðir. Það fór mest upp í 60 mánuði eftir bankahrunið.“

Um mjög lágar greiðslur sé að ræða þegar kemur að fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna.

„Fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna er ekki hugsuð til að framfleyta fjölskyldum í marga mánuði. Þetta er neyðarúrræði sem fólk á að geta gripið til í smátíma. Við höfum verið að tala fyrir því að þessi tími verði lengdur úr 30 mánuðum í 42 mánuði eða helst lengur. Enn sem komið er hafa þær tillögur okkar ekki hlotið hljómgrunn,“ segir Kjartan Már Kjartansson.