Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Vinnusvæði á Seyðisfirði rýmt

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnadeild Ríkislögregl - RÚV
Ekki þykir ráðlegt að aflétta frekari rýmingu á Seyðisfirði að sinni vegna úrkomuspár um helgina. Yfirlögregluþjónn á Austurlandi segir að grannt verði fylgst með svæðinu um helgina vegna væntanlegrar rigningar.

Rýmingu ekki aflétt

Lögreglan, almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Veðurstofan og Múlaþing funduðu í gær um stöðu mála á Seyðisfirði. Á fundum var ákveðið að aflétta ekki rýmingu að svo stöddu vegna úrkomuspár fyrir helgina. Kristján Ólafur Guðnason er yfirlögregluþjónn á Austurlandi.

„Hreinsunarstarf er svo sem enn í gangi og til viðbótar því að þá er verið að skoða ennþá með afléttingu á rýmingu, í það minnsta á hluta af svæðinu og verður væntanlega tekin ákvörðun um það á sunnudag eða mánudag, svona á að giska." segir Kristján. 

Nú er spáð töluverðri úrkomu á svæðinu, sérstaklega á laugardag. Hafið þið einhverjar áhyggjur af stöðunni?

„Já það er auðvitað ástæða til að fylgjast vel með þegar það kemur svona spá af því að þetta er talsvert mikil úrkoma sem að von er á þarna þannig að það var að minnsta kosti ákveðið að bíða með allar frekar ráðstafanir varðandi afléttingu rýmingar þar til að það veður gengur yfir."

Reisa bráðabirgðavarnargarð

Samhliða hreinsunarstarfi er nú unnið er að því að reisa bráðabirgðavarnargarð fyrir ofanflóð við Fossgötu, dýpka farveg Búðarár og að hreinsa Fossgötu og Múla. Búist er við að þessum störfum ljúki innan fárra daga. 
 
„Það er verið að reyna að tryggja svæðið almennt meðal annars með varnargörðum þar sem þeir þykja nauðsynlegir og eins verið að dýpka þarna árfarvegi og sú vinna gengur vel."

Uppfært 12:24: Lögreglan á Austurlandi sendi frá sér tilkynningu rétt í þessu þar sem ábending frá íbúum á Seyðisfirði barst þess efnis að sprunga í stóru skriðunni hafi gliðnað. Því var talin ástæða til að rýma vinnusvæðið. 

Tilkynninguna má sjá hér að neðan:

„Um klukkan hálf tólf í morgun bárust ábendingar frá íbúum á Seyðisfirði um að sprunga er myndaðist út af stóru skriðunni er féll þann 18. desember hafi hugsanlega gliðnað. Vinnusvæði þar fyrir neðan var í kjölfarið rýmt og því lokað. Samkvæmt gögnum Veðurstofu er ekki að sjá hreyfingu á svæðinu en það þó enn til skoðunar og starfsmenn Veðurstofu á vettvangi. Vonir standa til að niðurstöður liggi fyrir fljótlega. Allar ábendingar af þessum toga eru teknar alvarlega,“ segir í tilkynningunni.  

Fréttin hefur verið uppfærð og fyrirsögn breytt.

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnadeild Ríkislögregl - RÚV
Á Seyðisfirði í dag