Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Tollverðir ósáttir við að vera ekki í forgangshópi

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Tollverðir á Keflavíkurflugvelli eru afar ósáttir við að vera ekki skilgreindir í forgangshóp fyrir bólusetningu gegn COVID-19. Guðbjörn Guðbjörnsson yfirtollvörður segir vettvangsmenn tollsins vera áhyggjufulla vegna nándar við veiruna á landamærunum. Sóttvarnalæknir segir augljóst að sé forgangshópum fjölgað fái helstu áhættuhópar síðar bólusetningu.

Síðustu daga hefur fjöldi nýrra smita greinst á landamærunum og nýgengi landamærasmita er nú meira en nýgengi innanlandssmita. Það þýðir að uppsafnaður fjöldi smita síðustu 14 daga er meiri við landamærin en innanlands. Erlendis er staða faraldursins jafnframt mun verri en á Íslandi.

Tollverðir þurfa að vera í beinum samskiptum við fólk sem fer yfir landamærin. Í því felst til dæmis tollskoðun á farangri fólks og jafnvel líkamsleit. Ítrustu sóttvarna er gætt meðal tollvarða, en nándin er eitthvað sem erfitt er að komast hjá, segir Guðbjörn.

Yfirmenn og starfsmenn hafa komið ábendingum um þetta til heilbrigðisyfirvalda en fengið fá svör.

Ekki til nóg bóluefni fyrir alla sem vilja vera í forgangi

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir var spurður um forgangsröðunina á upplýsingafundi í dag. Hann segir erfitt að koma öllum þeim fyrir sem telja sig þurfa að vera í forgangi fyrir bóluefni í forgangsröðunina. Meta þurfi hvert dæmi fyrir sig.

„Ef það er misvægi þá bara skoðum við það. Það er á engan hátt verið að meta menn eitthvað mismunandi. Þetta er ekki bara bundið við Keflavíkurflugvöll, tollverði og lögreglu heldur er þetta út um allt land að menn eru ósáttir og eru að bera sig saman milli staða. Þetta helgast náttúrlega af því að það er ekki til nóg af bóluefni til að bólusetja alla.“

„Og það er algerlega augljóst að ef allir ættu að vera í forgangi þá myndum við ýta eldra fólkinu niður forgangslistann,“ segir Þórólfur. „Og ef við ættum að bólusetja alla þá sem telja sig ættu vera í forgangi þá myndi ekki koma að eldra fólkinu fyrr en mjög seint.“

Þórólfur biður fólk um að íhuga þessa stöðu. „Ég tel að það eigi ekki að vera þannig. En hins vegar þá þurfum við að skoða það ef fólk er í mikilli hættu á að smitast að setja það inn í jöfnuna og flokkana. Þá þurfum við bara að endurskoða það,“ sagði Þórólfur.

Enginn tollvörður smitast

Enginn tollvörður hefur greinst með smit síðan faraldurinn hófst. Guðbjörn segir framkvæmd sóttvarna hjá skatta- og tollyfirvöldum vera til fyrirmyndar. Skrifstofum sé skipt í sóttvarnahólf og ítrustu varúðar gætt. Því sé hins vegar erfitt að koma við meðal vettvangsstarfsmanna.

„Það liggur í hlutarins eðli að tollverðir eru í fremstu víglínu við farþega sem eru að koma erlendis frá. Bæði í leit í farangri og við líkamsleit. Það er hluti af okkar verkefnum. Og svo erum við að leita í hundruðum hraðsendinga og póstsendinga og opna þær.“

Það sama á við um tollverði sem afgreiða ferðalanga frá útlöndum á Reykjavíkurflugvelli. Um 50 tollverðir ganga vaktir við landamærin á Keflavíkurflugvelli. „Menn eru smeykir við að tjá sig um þetta, það er bara eins og það er,“ segir Guðbjörn.

„Þarna er fólk sem er ekki að hitta foreldra sína og fólk í áhættuhópum,“ bendir Guðbjörn á og segir tollverði gera ýmsar ráðstafanir til að dreifa ekki hugsanlegu smiti. „Auðvitað hefur þetta sett fólki ákveðnar skorður, bæði náttúrlega er allskonar fólk að vinna í tollinum. Þetta er yngra og eldra fólk og fólk með undirliggjandi sjúkdóma og svo framvegis. Það hefur verið í framvarðarsveitinni mjög lengi.“