„Þetta er úrslitaleikur fyrir mér“

Mynd: Mummi Lú / RÚV

„Þetta er úrslitaleikur fyrir mér“

14.01.2021 - 07:00
Bjarki Már Elísson, landsliðsmaður í handbolta, segir íslenska verða að mæta betur til leiks gegn Portúgal í dag en það gerði á sunnudaginn var. Þetta sé líklega úrslitaleikur um sigur í riðlinum.

 

Liðin eru að mætast í þriðja sinn á átta dögum og hafa unnið sinn leikinn hvort. Ísland lenti fimm mörkum undir í fyrri hálfleik í síðari leiknum á sunnudag en vann að lokum níu marka sigur.

„Við þurfum náttúrulega að mæta klárir til leiks, betur en við gerðum í síðasta leik og spila vörnina okkar upp á tíu. Ég held að ef við hittum á góðan dag eins og við gerðum á sunnudaginn þá klárum við þá,“ segir Bjarki Már.

Hann segir margt mega læra af fyrri leikjunum tveimur gegn Portúgal, bæði gott og slæmt.

„Mér fannst fyrri leikurinn í rauninni vera 50/50 og við, ég meðal annars, klikkum á færum í restina til að jafna leikinn og jafnvel vinna hann. Það var bara stál í stál.“

„Seinni leikurinn var svolítið skrýtinn. Veit ekki hvaða lærdóm er hægt að draga, við þurfum alla vega að mæta klárari til leiks núna en við gerðum á sunnudaginn. Það er klárt.“

Þurfum að láta boltann ganga

Það er óvenjulegt í alþjóðahandbolta að leika þrívegis við sama liðið í röð. Bjarki Már segist ekki reikna með miklum taktískum breytingum í upplegginu.

„Ég held það verði ekki rosamikið. Við vorum alveg að finna lausnir sóknarlega, fannst mér, sérstaklega í seinni leiknum. Við fengum fullt af góðum færum, sérstaklega í seinni hálfleiknum. Náðum að láta boltann vinna vel, ég held að það verði lykill, að láta hann ganga. Þeir eru mikið að mæta á blindu hliðina í vörn og stoppa sóknir. Við þurfum að láta boltann fljóta og þá komumst við í gegn og svo er þetta náttúrulega bara að nýta færin og koma sér tilbaka,“ segir Bjarki Már.

Auk Íslands og Portúgal eru Alsír og Marókkó í riðlinum. Bjarki Már viðurkennir að vita lítið um þau tvö síðarnefndu en að Portúgalsleikurinn sé úrslitaleikurinn.

„Ég sé þetta bara þannig að við erum að fara í úrslitaleik á móti Portúgal. Ég veit svosem lítið um hinar þjóðirnar. Við eigum eftir að skoða það á vídeói, Gummi er pottþétt með nóg af efni. Við þurfum að byrja að vinna þennan leik gegn Portúgal og þá erum við í mjög góðri stöðu þannig að það er fyrir mér svolítill úrslitaleikur,“ segir Bjarki Már Elísson.

Leikur Íslands og Portúgal er klukkan 19:30 í kvöld og er í beinni útsendingu RÚV og Rásar 2. Upphitun hefst í HM stofunni á RÚV klukkan 19:15.

 

Tengdar fréttir

Handbolti

„Þetta er svolítið eins og skák“

Handbolti

„Allir komnir með ógeð hver á öðrum“

Handbolti

„Breytist ekkert þótt ég sé með eitthvað band“