Stella snýr aftur hjá Fram

Stella Sigurðardóttir, Fram, sækir að vörn Stjörnunnar
 Mynd: Eva Björk

Stella snýr aftur hjá Fram

14.01.2021 - 15:23
Stella Sigurðardóttir hefur ákveðið að taka slaginn með Fram út leiktíðina í Olís-deildinni í handbolta. Stella sem var ein besta handboltakona landsins neyddist til að leggja skóna á hilluna aðeins 23 ára vegna höfuðhöggs sem hún fékk í landsleik í nóvember 2013. Hún hefur nú náð heilsu aftur.

Stella er í hópi 20 leikjahæstu landsliðskvenna Íslands. Hún á að baki 72 A-landsleiki og hefur skorað í þeim 205 mörk. Hún hefur tekið þátt í öllum stórmótum sem kvennalandslið Íslands hefur komist inn á, EM 2010, HM 2011 og EM 2012.

Stella er uppalin í Fram og var í lykilhlutverki hjá liðunum þegar það varð bikarmeistari 2010 og 2011 og Íslandsmeistari 2013. Eftir Íslandsmeistaratitilinn 2013 hélt Stella svo í atvinnumennsku til Danmerkur.

Ferillinn í Danmörku varð þó stuttur, þar sem hún varð fyrir höfuðhöggi í landsleik Íslands og Sviss í lok nóvember 2013. Höfuðhöggið varð til þess að hún hefur ekki spilað handbolta síðan. Á heimasíðu Fram í dag er hins vegar tilkynnt um endurkomu Stellu. Fram spilar sinn fyrsta leik eftir langt COVID-19 hlé á laugardaginn klukkan 14:30. Þá taka Framarar á móti ÍBV.