Skipstjórinn sektaður og missir réttindin í 4 mánuði

14.01.2021 - 14:07
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Skipstjóri Júlíusar Geirmundssonar, sem var ákærður fyrir brot á sjómannalögum eftir að COVID-19 hópsýking kom upp um borð, játaði sök þegar ákæra á hendur honum var þingfest í Héraðsdómi Vestfjarða í dag. Honum var gert að greiða 750 þúsund krónur í sekt og missir skipstjórnarréttindi sín í fjóra mánuði. Karl Ingi Vilbergsson, lögreglustjóri á Vestfjörðum, segir að málinu sé þar með lokið.

Hópsýkingin kom upp í október. Alls veiktust 22 af 25 í áhöfninni, sumir þeirra nokkuð illa.  Skipverjar fóru þó ekki í sýnatöku þegar togarinn kom til hafnar að taka olíu. Skipið hafði þá verið að veiðum í þrjár vikur og margir skipverjar farnir að sýna einkenni. Síðar kom í ljós að sá fyrsti sem veiktist var farinn að sýna einkenni þegar skipið hafði verið að veiðum í aðeins nokkra daga. 

Rannsókn lögreglu hófst tæpri viku seinna en bæði skipstjórinn og útgerð togarans, Hraðfrystihúsið Gunnvör, sættu harðri gagnrýni.  Arnar Hilmarsson, háseti um borð, sagði í viðtali við fréttastofu á sínum tíma að veikir menn hefðu unnið um borð 

Hraðfrystihúsið sendi frá sér yfirlýsingu þar sem fyrirtækið viðurkenndi að mistök hefðu verið gert. Rétt hefði verið að láta Landhelgisgæsluna vita af smitinu um borð og fela þar til bærum yfirvöldum að meta hvort rétt hefði verið að sigla skipinu til hafnar. Það hefði aldrei verið ætlun útgerðarinnar að stefna lífi og heilsu áhafnarinnar í hættu.

Skipverjarnir lýstu í framhaldinu yfir vantrausti á skipstjórann og kröfðust þess að hann hætti störfum. Í sjóprófi sem fór fram í Héraðsdómi Vestfjarða kom fram að margir þeirra glímdu enn við líkamleg og sálræn eftirköst. Og að umdæmislæknir sóttvarna hefði verið skýr við skipstjórann að fara ætti í sýnatöku.

Skipstjórinn var síðan ákærður fyrir brot á sjómannalögum og játaði sök þegar ákæran var þingfest í dag. Honum var gert að greiða 750 þúsund krónur í sekt og missir skipstjórnarréttindi sín í fjóra mánuði. Verjandi hans vildi ekki veita fréttastofu viðtal.