Sígild tónverk blökkukvenna á 20. öld í brennidepli

14.01.2021 - 00:18

Höfundar

Tónverk svartra kvenna frá fyrri hluta og miðbiki 20. aldar eru nú farin að vekja athygli vegna viðhorfsbreytinga á seinni árum. Þar má nefna þrjú bandarísk tónskáld: Florence Price (1887-1953), Undine Smith Moore (1904-1989) og Margaret Bonds (1913-1972).

Á fyrri hluta 20. aldar þurftu blökkukonur í Bandaríkjunum að glíma við tvöfalda fordóma ef þær ætluðu að hasla sér völl sem tónskáld á sviði sígildrar tónlistar. Það var útbreitt viðhorf að konur væru ekki færar um að semja tónlist og í tilfelli þessara kvenna bættust kynþáttafordómar við. Á seinni árum hefur orðið viðhorfsbreyting í þessum efnum og tónverk svartra kvenna frá fyrri hluta 20. aldar eru nú farin að vekja athygli, þau eru hljóðrituð og gefin út, mörg í fyrsta skipti, og tónlistarfræðingar eru farnir að rannsaka feril tónskáldanna.

Fyrsta sinfónía svartrar amerískrar konu flutt 1933

Meðal þeirra svörtu kventónskálda sem athyglin er farin að beinast að er  Florence Price, sem fæddist árið 1887 í Little Rock í Arkansas-fylki í Bandaríkjunum. 17 ára gömul fór Florence í Tónlistarháskóla Nýja Englands, en samkvæmt ráðleggingum móður sinnar leyndi hún þar uppruna sínum og þóttist vera ættuð frá Mexíkó. Hún var nógu ljós á hörund til þess að það væri tekið trúanlegt. Florence lagði stund á píanóleik, orgelleik og tónfræði og útskrifaðist með bakkalárgráðu árið 1906. Árið 1912 giftist Florence lögfræðingnum Thomas J. Price og þau fluttu til Chicago 1927, en þar jók Florence við tónlistarmenntun sína í ýmsum skólum. Eftir að þau hjónin skildu bjó Florence um tíma með vinkonu sinni, Margaret Bonds, sem einnig var tónskáld, en mun yngri en Florence og hafði reyndar verið nemandi hennar. Árið 1932 tóku Florence og Margaret báðar þátt í tónsmíðakeppni Wanamaker-stofnunarinnar og fengu báðar 1. verðlaun, Florence í flokki hljómsveitarverka og Margaret í flokki sönglaga. Verðlaunaverk Florence, sinfónía nr.1, var flutt á tónleikum af Sinfóníuhljómsveit Chicago árið eftir, 1933, og var það í fyrsta skipti sem stór hljómsveit flutti tónverk eftir svarta bandaríska konu.

Mikilvægt ljóð í hringiðu kynþáttafordóma

Margaret Bonds, vinkona Florence Price, var fædd 1913 í Chicago. Árið 1929, þegar Margaret var 16 ára gömul, hóf hún tónlistarnám við háskólann Northwestern University í Evanston í Illinois. en þar varð hún fyrir meiri kynþáttafordómum en hún hafði áður kynnst, til dæmis máttu blökkumenn ekki búa á stúdentagarðinum og svartar konur fengu ekki að nota sundlaug háskólans. Síðar sagði Margaret í viðtali sem James Hatch tók:

Ég var í háskóla sem var fullur af kynþáttafordómum, á stað sem var gegnsýrður af fordómum. Svo var ég að skoða ljóðasafnið í kjallaranum á Almenningsbókasafninu í Evanston og þar rekst ég á þetta dásamlega ljóð: „Blökkumaður talar um fljót“, og ég er viss um að það ýtti mikið undir sjálfsöryggi mitt. Því í þessu ljóði talar hann um það hvað svarti maðurinn sé mikill. Og ef ég hafði einhverjar efasemdir, sem ég hlaut að hafa, þarna er maður á stað þar sem manni er neitað um þjónustu á veitingastöðum og maður er í háskóla, maður fórnar ýmsu til þess að komast í gegnum skólann, og ég veit að þetta ljóð átti þátt í því að bjarga mér.

Ljóðið var eftir Langston Hughes. Síðar átti Margaret eftir að kynnast skáldinu, með þeim tókst góð vinátta og hún samdi tónlist við mörg af ljóðum hans. Margaret tók bakkalárgráðu í píanóleik og tónsmíðum við Northwestern-háskólann árið 1933 og meistaragráðu 1935. Árið 1933 varð Margaret Bonds fyrst blökkumanna til þess að leika með Sinfóníuhljómsveit Chicago, en hún lék þá einleik í píanókonsert eftir John Alden Carpenter. Árið eftir kom hún aftur fram sem einleikari með hljómsveitinni og þá var það píanókonsert eftir vinkonu hennar, Florence Price, sem fluttur var. Eftir meistarapróf sitt við Northwestern-háskólann fluttist Margaret Bonds til New York og starfaði þar sem tónlistarkennari, tónskáld og píanóleikari.

„Kennsla er í sjálfu sér listgrein“

Undine Smith fæddist árið 1904 og ólst upp í Virginíu-fylki í Bandaríkjunum. Hún vandist miklu sönglífi í kirkju svartra í heimabæ sínum, Jarrett, stundaði tónlistarnám í Fisk-háskólanum í Nashville og síðar í Juilliard-tónlistarskólanum í New York, en hún útskrifaðist þaðan 1926. Síðar nam hún einnig við Kólumbíu-háskóla og Manhattan-tónlistarskólann. Hún giftist James Arthur Moore árið 1940. Undine Smith Moore starfaði í 45 ár sem tónlistarkennari við Háskólanna í Virginíu og átti þátt í að stofna þar Svarta tónlistarmiðstöð árið 1969. Hún samdi tónverk af ýmsu tagi, en lagði mikla áherslu á söngverk. Þegar hún lést árið 1989, hafði hún samið meir en 100 tónverk, en stærsta verkið var óratórían „Atriðið úr lífi píslarvotts“ sem hún samdi til minningar um Martin Luther King árið 1981. Hennar var þó ekki síst minnst sem tónlistarkennara, enda hafði hún haft á orði að kennsla væri í sjálfu sér listgrein.

Í þættinum „Á tónsviðinu“ fim. 14. janúar kl.14.03 verður fjallað um Florence Price, Margaret Bonds og Undine Smith Moore og flutt tónlist eftir þær. Umsjón með þættinum hefur Una Margrét Jónsdóttir.