Nýtt íslenskt vélbyssudiskó, ógæfupönk og þungarokk

Mynd: Prophecy / Farg

Nýtt íslenskt vélbyssudiskó, ógæfupönk og þungarokk

14.01.2021 - 16:20

Höfundar

Það er daðrað við undirheimatónlist í Undiröldu kvöldsins og boðið upp á suðrænt vélbyssudiskó frá Hermigervli og Villa Neto, framsækið popp frá Russian.Girls, ógæfupönk frá Pínu Litlum Peysum og svo er það bara þungarokk og harðkjarna helvíti frá Sorg, Alchemia, Kötlu og Hvata.

Hermigervill og Villi Neto - Está Na Hora

Tónlistarmaðurinn Hermigervill heyrist í Undiröldunni í hverri viku þegar upphafsstefið ómar. Rétt fyrir jól sendi hann frá sér á lítilli plötu samstarf sitt við samfélagsmiðlapésann og sprelligosan Villa Neto sem heitir Está Na Hora sem minnir á suðrænan kokteil og sand á milli tánna.


Russian.Girls - Drepa mann

Á næstsíðasta degi ársins 2020 sendi sveitin Russian.Girls frá sér lagið Drepa mann ásamt myndbandi. Lagið er af væntanlegri þröngskífu sem talsmenn sveitarinnar áætla að komi út í byrjun árs hjá bbbbbb records


Pínu Litlar Peysur - Spítt í kaffið

Pínu Litlar Peysur er ný íslensk post-pönkhljómsveit, sem sendi frá sér fjögurra laga þröngskífu PLP LP þann 23. desember. Með henni fylgdi líka þeirra fyrsta tónlistarmyndband við lagið Spítt í kaffið sem er að finna á áðurnefndri skífu.


Sorg - Eldr

Hljómsveitin Sorg hyggur á útgáfu Kveður norna kalda raust í byrjun árs á helstu netveitum og vinyl Platan er 10 laga konseptplata sem fjallar um nornina Ljósbjörgu og hræðileg örlög hennar og inniheldur lagið Eldr.


Alchemia - It's Alright

Hljómsveitin Alchemia hefur starfað í hátt í áratug og hyggur nú á útgáfu af sinni fjórðu plötu í fullri lengd. Áður hefur þessi hressi metalkvartett sent frá sér plöturnar Alchemia 2011, Insanity 2014, Lunatic Lullabies 2016.


Katla - Farg

Á dögunum kom út Allt þetta helvítis myrkur sem er önnur breiðskífa hljómsveitarinnar Kötlu sem hefur vakið athygli út fyrir landsteinana. Katla er sveit þeirra Guðmundar Óla Pálmasonar úr Sólstöfum og Einars Thorberg Guðmundssonar úr sveitunum Fortíð og Potentiam.


Hvati - Wasteman

Harðkjarna hljómsveitin Hvati er að eigin sögn verkefni sem var stofnað upp úr gagnlausum leiðindum og óheftri sköpunargleði. Sveitin sem er í þyngri kantinum er undir áhrifum frá pönki og öfga-þungarokksveitum og var stofnuð í fyrra.