„Við erum að mínu mati með besta liðið í riðlinum og ef allt gengur upp förum við með fjögur stig með okkur inn í milliriðil,“ segir Logi en Ísland er í F-riðli ásamt Portúgal, Marokkó og Alsír.
Erum bara betri en Portúgal
Leikurinn gegn Portúgal er afar mikilvægur ætli Ísland sér að taka með fjögur stig í milliriðla. Logi telur íslenska liðið betra en það portúgalska.
„Við unnum þá á EM í fyrra og svo vorum við að koma úr tveggja leikja seríu á móti þeim sem Ísland vann samtals með sjö marka mun. Mér finnst við bara með betra lið,“ segir Logi en ásamt honum verður Arnar Pétursson sérfræðingur í HM-stofunni.
Efnilegasti markmaður heims og nýtt gullaldarlið á leiðinni
Logi er mjög hrifinn af leikmannahópi Íslands sem minnir hann að mörgu leyti á þann tíma sem silfurlið Íslands var að fæðast.
„Þetta er ekki ósvipað stemningunni sem var 2005 og 2006 þegar við ungu strákarnir vorum allt í einu margir komnir í topplið í Evrópu. Í kjölfarið fylgdu svo verðlaun og árangur,“ segir Logi og bætir við.
„Við erum með efnilegasta markmann í heimi í Viktori Gísla Hallgrímssyni og þar að auki erum við með einn besta markmannsþjálfara heims, Tomas Svensson. Svo er Elvar Örn Jónsson driffjöður í vörn og sókn og við erum bara með stútfullt lið af ótrúlega spennandi leikmönnum. Að auki eru svo þrír af sex markahæstu leikmönnum þýsku Bundesligunnar í hópnum,“ segir Logi og bætir við.
„Það er bara búið að svæfa mannskapinn í meðvirkni og fólk heldur að við séum bara með meðallið. Við erum með geggjað lið. Ég spái því að nýtt gullaldarlið sé að fæðast og geri kröfu á sæti í 8-liða úrslitum. Riðillinn okkar er í raun dauðafæri og ef við komumst í 8-liða úrslit getur allt gerst.“
Leikur Íslands og Portúgal hefst 19:30 en Kristjana, Logi og Arnar byrja að hita upp í HM-stofunni strax að loknum fréttum, eða klukkan 19:15.