
Leggur fram frumvarp um stjórnarskrárbreytingar
Katrín er bjartsýn á að þingið afgreiði frumvarpið á vorþingi sem hefst á mánudag. „Mín niðurstaða er að ég mun leggja fram tillögur að breytingum í einu frumvarpi núna á fyrstu dögum nýs þings.“
Tillögurnar í frumvarpi Katrínar varða auðlindir í þjóðareign, umhverfis- og náttúruvernd, íslenska tungu og breytingar á öðrum kafla stjórnarskrárinnar um forseta og framkvæmdavald.
Spurð hvort það séu vonbrigði að vera ein flutningsmaður fyrir stjórnarskrárfrumvarpi segir Katrín: „Ég átti nú kannski ekkert endilega von á að þessi mál, það er stjórnarskrárbreytingar, að það væri unnt að ná fullri samstöðu um þær.“
Hún bendir að umræðan um stjórnarskrárbreytingar síðasta áratuginn hafi verið mjög hörð milli andstæðra póla í stjórnmálunum. „Þannig að ég leyfi mér að binda vonir við það, af því að ég tel þrátt fyrir að það sé ekki samstaða í hópnum, þá hafi þetta verið góðir fundir og mjög mikilvæg sjónarmið sem hafi komið fram.“
Katrín segir að það sé ólík sýn milli flokka á Alþingi um stjórnarskrárbreytingar og það komi fram í málflutningi formanna og fulltrúa stjórnmálaflokka á Alþingi. „Ég vona að umræðan í þinginu verði til þess allavega að leiða fram aukna samstöðu um þessi mál,“ segir forsætisráðherra.