Rússland og Hvíta-Rússland eru í riðli með Suður-Kóreu og Slóveníu en í fyrri hálfleiknum voru Hvítrússar með frumkvæðið allt þar til Sergei Kosorotov jafnaði metin með þrumuskoti á lokasekúndu fyrri hálfleiks.
Í seinni hálfleik hélt jafnræðið með liðunum áfram og þau skiptust á að hafa forystuna. Mikið var um brottrekstra á síðustu tíu mínútum leiksins en á lokasekúndunum tókst Rússum að opna hornið fyrir reynsluboltann Danill Shishkarev en Ivan Maroz í marki Hvíta-Rússlands varði frá honum og jafntefli því niðurstaðan, 32-32. Hornamaðurinn Mikita Vailupau var markahæstur hjá Hvíta-Rússlandi með 10 mörk en hjá Rússum voru Kosorotov, Igor Soroka og Dmitrii Kiselev með sex mörk hver.
Rússar hafa tvisvar unnið til gullverðlauna á heimsmeistaramóti, fyrst árið 1993 og aftur árið 1997. Hvítrússar hafa aðeins fjórum sinnum áður keppt á heimsmeistaramóti en þeirra besti árangur kom á HM sem fram fór á Íslandi árið 1995, en þá endaði liðið í 9. sæti.
Þetta verður nokkuð áhugaverður riðill en Suður-Kórea ákvað að senda B-liðið sitt á HM þar sem aðalliðið vildi heldur halda sig heima vegna sóttvarnarreglna. Suður-Kórea verður á meðal keppnisþjóða á Ólympíuleikunum í sumar og var því ákveðið að liðið myndi heldur setja kraft í undirbúning fyrir leikana.