Guðveig Lind sækist eftir efsta sæti á lista Framsóknar

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
Guðveig Lind Eyglóardóttir, oddviti Framsóknarflokksins í Borgarbyggð, vill leiða framboðslista flokksins í Norðvesturkjördæmi í Alþingiskosningunum í haust. Tveir aðrir frambjóðendur vilja leiða listann.

Guðveig hefur verið oddviti Framsóknar í Borgarbyggð síðan 2014 og sækist eftir 1.-2. sæti á framboðslistanum. Hún sat í stjórn Sambands sveitarfélaga á Vesturlandi í sex ár og hefur numið ferðamálafræði í Háskólanum á Hólum. Guðveig stefnir á að ljúka meistaranámi í forystu og stjórnun frá Háskólanum á Bifröst í vor.

Í tilkynningu segist Guðveig hafa lagt áherslu á að efla þann hóp sem kemur að flokksstarfi Framsóknarflokksins og hlusta á sjónarmið ólíkra hópa. „Þá tel ég gríðarlega mikilvægt er að þeir sem starfa í umboði kjósenda séu virkir þátttakendur í samfélagsumræðunni og leggi sig fram um að styðja við atvinnulífið uppbyggingu innviða á allri landsbyggðinni.“

„Sú reynsla, þekking og innsýn sem mér hefur hlotnast á þessum tíma í samstarfi við öflugan hóp fólks úr ólíkum áttum hefur eflt áhuga minn á því að starfa á þessum vettvangi enn frekar.“

Kosið verður um fimm efstu sæti framboðslistans í kjördæminu í póstkosningu dagana 16. febrúar til 13. mars. Áður hafa Halla Signý Kristjánsdóttir alþingismaður og Stefán Vagn Stefánsson yfirlögregluþjónn gefið kost á sér til að leiða lista flokksins í Norðvesturkjördæmi.