Mynd: EPA-EFE - EPA

Fyrsta COVID-19 dauðsfallið í Kína í átta mánuði
14.01.2021 - 02:43
Kínversk yfirvöld greindu í morgun frá dauðsfalli af völdum COVID-19. Þetta er fyrsta dauðsfallið sem greint er frá vegna sjúkdómsins í um átta mánuði. Smitum hefur fjölgað undanfarið í landinu. Von er á hópi sérfræðinga frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni til landsins.
Heilbrigðisstofnun Kína gaf aðeins þær upplýsingar að dauðsfallið hafi orði í Hebei-héraði. Útgöngubann er í nokkrum borgum í héraðinu. 138 greindust smitaðir í landinu í gær, sem er það mesta á einum sólarhring síðan í mars á síðasta ári.
Kínverskum yfirvöldum hafði tekist nokkuð vel til við að halda faraldrinum niðri með ströngum inngripum. Víða hefur verið gripið til útgöngubanns, og víðtækar skimanir og ferðahömlur. Undanfarnar vikur hefur smitum farið fjölgandi, þá helst í norðurhluta landsins að sögn AFP fréttastofunnar.
Tíu manna sérfræðingahópur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar er væntanlegur til Wuhan í Kína í dag. Þar er talið að faraldurinn hafi átt upptök sín á matarmarkaði, sem hefur síðan verið haldið lokuðum.