Fimm breytingar frá fyrsta leik EM 2020

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Fimm breytingar frá fyrsta leik EM 2020

14.01.2021 - 14:00
Ellefu af þeim sextán leikmönnum Íslands sem verða í leikmannahóp Íslands í fyrsta leik liðsins á HM í Egyptalandi á Portúgal í kvöld voru líka í leikmannahópnum sem vann Dani í fyrsta leik EM fyrir ári síðan. Það eru því fimm breytingar á liðinu miðað við fyrsta leik síðasta stórmóts.

Aron Pálmarsson, Guðjón Valur Sigurðsson, Björgvin Páll Gústavsson, Kári Kristján Kristjánsson og Haukur Þrastarson voru allir með íslenska liðinu í sigrinum á Danmörku í Malmö á EM fyrir ári síðan. Guðjón Valur er nú hættur, Aron og Haukur meiddir og Björgvin Páll og Kári eru utan 16 manna hópsins í kvöld, þó þeir séu með liðinu í Egyptalandi.

Þeir fimm sem verða með liðinu í kvöld en spiluðu ekki Danaleikinn á EM í fyrra eru Ágúst Elí Björgvinsson, Ómar Ingi Magnússon, Oddur Grétarsson, Gísli Þorgeir Kristjánsson og Elliði Snær Viðarsson. Ágúst Elí, Ómar Ingi og Gísli Þorgeir voru allir hins vegar með Íslandi á HM 2019, tveir síðast nefndu voru meiddir á EM í fyrra en þá var Ágúst ekki valinn.

Elliði þreytir hins vegar frumraun sína á stórmóti í kvöld. Oddur Grétarsson er á sínu þriðja stórmóti. Það eru þó níu ár frá síðasta stórmótinu hans. Oddur hafði áður verið með Íslandi á HM 2011 og á EM 2012.