Mynd: Höskuldur Kári Schram - RÚV

Einn í gæsluvarðhald eftir árásina í Borgarholtsskóla
14.01.2021 - 16:06
Einn piltur var í dag úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald í Héraðsdómi Reykjavíkur eftir hnífaárás í Borgarholtsskóla um hádegisbil í gær. Fallist var á gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna að kröfu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem rannsakar nú málið.
Þrír voru handteknir eftir árásina og lögreglan fór fram á gæsluvarðhald yfir þeim öllum. Aðeins var fallist á gæsluvarðhald yfir einum þeirra og hinir tveir hafa verið látnir lausir.
Sex voru fluttir á sjúkrahús eftir árásina en meiðsl þeirra sem særðust voru ekki lífshættuleg og hafa þeir flestir verið útskrifaðir af sjúkrahúsi.
Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sagði í samtali við fréttastofu í morgun að lögreglan hefði fjölda myndskeiða frá átökunum og þau nýttust við rannsókn málsins. Þá hefðu verið teknar margar skýrslur, bæði af vitnum og þeim sem þarna hefðu komið við sögu.
Samkvæmt nýjum upplýsingum frá lögreglunni miðar rannsókn málsins vel.