Einangraður í hefndarhug og neitar að borga Giuliani

14.01.2021 - 16:13
epa08933166 US President Donald J. Trump departs the White House in Washington, DC, USA, 12 January 2021. The President is heading to Alamo, Texas to visit the border wall between the United States and Mexico. This is the Presidents first appearance following the insurrection at the U.S. Capitol by his followers last week.  EPA-EFE/Samuel Corum / POOL
 Mynd: EPA-EFE - BLOOMBERG POOL
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, er sagður einangraður og í hefnarhug eftir atburði síðustu daga. Hans nánustu stuðningsmenn hafa ekki komið honum til varnar eftir ákæruna til embættismissis, hann er æfur út í varaforseta sinn fyrir að láta ekki undan kröfum sínum og vinslit hafa orðið hjá honum og Rudy Giuliani. Sex dagar eru þar til einn umdeildasti forseti Bandaríkjanna lætur af störfum.

Þetta er inntakið í grein þriggja blaðamanna Washington Post um stöðuna í Hvíta húsinu.

„Skrifstofur í Hvíta húsinu eru teknar að tæmast og forsetinn lætur reiði sína bitna á þeim sem eftir eru,“ segir í grein blaðsins.  Hann er sagður brjálaður út í Mike Pence, varaforseta, fyrir að hafa ekki orðið við ósk sinni um að ógilda úrslit kosninganna eins og hann taldi Pence geta gert.

Peter Baker, fréttamaður New York Times í Hvíta húsinu, greindi frá því í gærkvöld á Twitter-síðu sinni að lagaprófessorinn, sem komst að niðurstöðunni um að varaforsetinn gæti ógilt kosningarnar, hefði verið rekinn úr starfi sínu hjá Chapman-háskólanum.

Washington Post segir forsetann enn reiðari út í  Rudy Giuliani, lögmann sinn og helstu klappstýru. Giuliani hefur farið mikinn í baráttu Trumps fyrir að ógilda úrslit forsetakosninganna og hélt að hann gæti rukkað 20 þúsund dollara á dag. Blaðið segir Trump hafa skipað aðstoðarmönnum að greiða ekki neina reikninga frá Giuliani enda hafi hann haft efasemdir um margt af því sem Giuliani hafi gert og sagt.

Lögmaðurinn var ábyrgur fyrir einni skrautlegustu uppákomunni eftir forsetakosningarnar þegar teymi hans ruglaðist á hóteli og garðyrkjufyrirtæki þegar það bókaði stað undir blaðamannafund. Maggie Haberman, sem skrifar fyrir New York Times um Hvíta húsið, er sömu skoðunar og Washington Post, slest hafi upp á vinskap Trumps og Giuliani. 

Til að bæta gráu ofan á svart gat forsetinn ekki annað en fylgdist þögull með þegar Demókratar í fulltrúadeildinni og tíu Repúblikanar greiddu atkvæði með ákæru á hendur honum til embættismissis. Vanalega hefði hann látið óvildarmenn sína kenna á því á Twitter-síðu sinni en þaðan hefur hann verið fjarlægður. Rétt eins og af flestum samfélagsmiðlum.

Það sem honum sveið þó mest undan var að enginn annar skyldi koma honum til varnar, ef marka má Washington Post. Ekkert heyrðist frá fjölmiðlafulltrúanum Kayleigh McEnaney, tengdasyninum Jared Kushner eða starfsmannastjóranum Mark Meadows. Trump sagði sjálfur við fjölmiðla á þriðjudag að ef Demókratar héldu ákærunni til streitu yrði það hættulegt og myndi valda mikilli reiði í landinu. 

New York Times segir í umfjöllun sinni í dag að verði Trump fundinn sekur þýði það ekki sjálfkrafa að honum sé bannað að bjóða sig aftur fram.  Aftur á móti verði hægt að leggja fram tillögu þess efnis verði forsetinn sakfelldur.

Þetta er sagt eitthvað sem hugnist mörgum Demókrötum en líka nokkrum Repúblikönum. Einhverjir séu farnir að leggja drög að eigin forsetaframboði en aðrir vilja að flokkurinn fjarlægist Trump.  Talið er að Mitch McConnell, leiðtogi Repúblikanaflokksins í öldungadeildinni, sé í síðarnefnda hópnum.  Í orðsendingu til flokksbræðra sinna sagðist hann ætla að hlusta málflutning lögmanna áður en hann tekur ákvörðun um hvernig hann greiðir atkvæði þegar ákæran kemur til kasta öldungadeildarinnar. 

CNN bendir á að þetta séu allt önnur viðbrögð hjá McConnell nú en þegar Trump var ákærður í fyrra skiptið. Þá lýsti hann strax yfir andstöðu sinni. Staðan sé líka allt önnur í dag. Trump sé talinn skaðlegur fyrir flokkinn, kostar hann mikla fjármuni og svo sé kjörtímabili hans líka lokið. 

McConnell hefur þó lýst því yfir að ómögulegt verði fyrir öldungadeildina að afgreiða ákæruna fyrir 20. janúar þegar Joe Biden tekur við lyklavöldum í Hvíta húsinu. Þar verður Trump ekki, fjórði forsetinn í sögu Bandaríkjanna til að sniðganga embættistöku eftirmanns síns og sá fyrsti í meira en heila öld.

Leiðrétting: Giuliani er með 20 þúsund dollara á dag en ekki klukkustund.