Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Bráðavarnir við Seyðisfjörð verða tilbúnar fljótlega

Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Björn Ingimarsson sveitarstjóri í Múlaþingi segir að enn sé verið að meta tjón af völdum aurskriðanna sem féllu á Seyðisfirði í síðasta mánuði. Rýming er enn í gildi á hluta svæðisins og hann segir að hreinsunarstarf muni taka nokkra mánuði.  Hann á von á að bráðavarnir verði tilbúnar innan nokkurra daga og nýjar íbúðir í bænum verði tilbúnar eftir nokkra mánuði. 

Björn var gestur Morgunvaktarinnar á Rás eitt í morgun og fór þar yfir stöðuna á svæðinu.

„Ætli það séu ekki um 25-30 einstaklingar sem hafa ekki fengið að snúa til heimilis. Ýmist hafa þessir einstaklingar farið í eigið eða húsnæði á eigin vegum eða sveitarfélagið hefur séð um að útvega viðkomandi húsnæði,“ segir Björn.

Hann segir að mikið verk sé enn óunnið í hreinsunarstarfinu. „Í hreinsunarstarfinu til að byrja með var áhersla á að opna í gegnum bæinn og koma á rafmagns- og hitatengingum og lagnakerfinu - ná að virkja það aftur. Þetta er vinna sem ég sé fyrir mér að muni standa næstu vikur og mánuði.“

Náttúruhamfaratrygging leggur nú mat á hversu mikið tjón varð af völdum skriðanna. Björn segir að vinnslu þess hafi verið flýtt eftir föngum. Hann segir að uppbygging í bænum utan skilgreindra hættusvæða sé í forgangi.

„Eitt af því sem við erum að vinna að er að það komist framkvæmdir á því svæði af stað sem fyrst.  Það er verið að horfa til þess að það verði farið í íbúðabyggð þarna þannig að íbúðir verði nothæfar jafnvel fyrir sumarbyrjun. Þetta er eitt af forgangsmálum hjá okkur því að þeir sem geta ekki snúið aftur í eigin eignir, þeir geti þá skoðað það að byggja að nýju eða taka húsnæði til leigu eða kaups.“

Björn segir að núna verði allir ferlar varðandi hættumat og rýmingu metnir. „Það er alveg ljóst að þegar endurskoðað hættumat liggur fyrir, þá mun sveitarfélagið láta vinna aðgerðaáætlun sem verður aðgengileg íbúum.  Það er mjög mikilvægt að svo sé. Samhliða hreinsunarstarfinu er verið að vinna bráðavarnir sem við erum að reikna með að verði orðnar virkar innan nokkurra daga. Jafnvel í næstu viku. Síðan verður unnið að heildstæðum forvörnum sem taka mið af endurskoðuðu hættumati og það er í rauninni mikið meira mál.“