Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Bíður enn eftir að sér finnist hún örugg

14.01.2021 - 23:42
Mynd: RÚV / RÚV
Kona á Flateyri segir þreytandi að bíða eftir að sér finnist hún örugg. Eitt ár er liðið frá því að snjóflóð féllu í Súgandafirði og Önundarfirði.

Flóðin féllu öll á tólfta tímanum að kvöldi 14. janúar, tvö á Flateyri og eitt á Norðureyri í Súgandafirði. Það síðarnefnda framkallaði flóðbylgju sem skall á þorpinu á Suðureyri.

Flóðin á Flateyri fóru yfir snjóflóðavarnargarðinn fyrir ofan bæinn og á hús í Ólafstúni. Stúlka í húsinu var föst í flóðinu í um hálftíma áður en henni var bjargað. Mesta eyðileggingin varð í höfninni á Flateyri þar sem sex bátar sukku. 

Skömmu eftir flóðin lagði ríkisstjórnin til fimmtán aðgerðir til þess að treysta búsetu og efla atvinnulíf á Flateyri. Hluti þeirra var að setja á fót heilsugæslusel og koma björgunarbát fyrir í þorpinu.

Nýtt hættumat var unnið fyrir Flateyri. Með því fóru tugir húsa inn á hættusvæði, á þriðja tug þeirra eru á svæði C og þar með í mestri hættu. Til stendur að bæta ofanflóðavarnir, en ekki er vitað hvenær framkvæmdir geta hafist. 
„Núna erum við bara á þeim tímapunkti að það væri gott að fara að heyra einhverjar tillögur og það væri komið plan,“ segir Steinunn Einarsdóttir, héraðslögreglumaður á Flateyri.

Steinunn segir mikilvægt að Flateyringar séu upplýstir. „Nú veit ég bara til dæmis ekkert hver staðan er, akkúrat á þessu, en ég hef fulla trú á að það sé vinna í gangi. Svo kemur bara þegar það þarf að fjármagna og segja og að það séu allir tilbúnir til þess sem þeir lofuðu.“

Flateyringar fundu fyrir ónotum þegar vetur nálgaðist á ný.
„En maður reyndi að hugsa rökhugsun að það væri lítill snjór í fjöllunum. En það er pínu stressandi og þreytandi að bíða eftir því að eitthvað gerist og okkur líði eins og við séum örugg,“ segir Hrefna Erlinda Valdemarsdóttir, eigandi fiskvinnslunnar Hrefnu á Flateyri.

Verkefnastjóri var ráðinn og í október var níu milljónum úthlutað til styrktar fimmtán verkefnum tengdum atvinnuuppbyggingu. Þar á meðal fékk fiskvinnslan Hrefna styrk til að endurvinna viðskiptaáætlun fyrir starfsemina í ljósi COVID-19.

„Mér finnst það breyta miklu varðandi framhaldið að geta haft þann möguleika að gera nýja og halda áfram.“ 
Þannig það hjálpar starfseminni?
„Já algjörlega.“