Joe Biden, verðandi forseti Bandaríkjanna, segist í yfirlýsingu vona að öldungadeildarþingmenn finni leiðir til þess að koma mikilvægum stefnumálum hans á dagskrá þó ákæran á hendur fráfarandi forseta sé komin á borð þeirra.
Bandaríkin séu enn að kljást við kórónuveirufaraldurinn og hnignandi efnahag, hefur AFP fréttastofan eftir yfirlýsingu hans. Eins þurfi þingmenn að samþykkja tilnefningar hans í ráðuneyti svo ríkisstjórn hans geti hafist handa sem fyrst eftir að Biden sver embættiseið sinn í næstu viku.
Mitch McConnell, leiðtogi meirihluta Repúblikana í öldungadeildinni, greindi frá því í gær að réttarhöld yfir fráfarandi forseta hefjist ekki fyrr en Biden verður tekinn við embættinu.