Ævintýralegur sigur Alsír á Marokkó

Mynd: EPA / EPA

Ævintýralegur sigur Alsír á Marokkó

14.01.2021 - 18:40
Alsír vann Marokkó í fyrri leik dagsins í F-riðli HM karla í handbolta í Egyptalandi. Leiknum lauk 24-23. Marokkó var þó sjö mörkum yfir í hálfleik. Liðin eru í riðli með Íslandi, sem mætir Portúgal í seinni leik dagsins í riðlinum klukkan 19:30

Alsír er bronsþjóð Afríkukeppninnar frá því í fyrra. Alsíringar misstu af síðustu tveimur heimsmeistaramótum en voru síðast með í Katar 2015. Þá enduðu Alsíringar neðstir eða í 24. sæti. Marokkó varð í 6. sæti Afríkukeppninnar í fyrra. Liðið hefur ekki komust á HM í 14 ár, eða síðan á HM 2007 í Þýskalandi. Þá endaði Marokkó í 20. sæti.

Miðað við þetta töldust Alsíringar sigurstranglegri í leiknum og þeir skoruðu allavega fyrsta markið. Marokkóbúar spiluðu afar framliggjandi og villta vörn, sem varð líka til þess að þeir söfnuðu upp tveggja mínútna brottvísunum strax á fyrstu mínútunum. Að auki fékk Mohamed Amine Bentaleb rautt spjald hjá Marokkó eftir aðeins fjögurra mínútna leik.

En Alsíringum gekk illa að finna leiðir í gegnum þessa athyglisverðu vörn Marokkóbúa. Þeir fengu þó þrjú vítaköst í fyrri hálfleik. Yassine Idrissi markvörður Marokkó gerði sér hins vegar lítið fyrir og varði öll þrjú vítin. Samtals varði hann sjö skot í fyrri hálfleik, auk þess að skora eitt mark. Marokkóbúar voru mun betur stemmdir og voru komnir sjö mörkum yfir áður en fyrri hálfleikur var á enda. Hálfleikstölur 15-8 fyrir peppuðu liði Marokkó.

Alsíringar sóttu hins vegar í sig veðrið í seinni hálfleik og af mikilli þolinmæði tókst þeim að minnka muninn niður í eitt mark í 22-21 þegar Abdi Ayoub skoraði, en hann var markahæstur Alsíringa í leiknum með sjö mörk. Reda Arib jafnaði svo í 23-23 þegar ein og hálf mínúta var eftir og Daoud Hichem kom Alsír svo yfir í fyrsta sinn síðan í stöðunni 1-0 þegar hann kom Alsír í 24-23 og aðeins um mínúta eftir. Þetta mark tryggði Alsír hreint ævintýralegan sigur, 24-23.

Þrjú lið komast áfram úr hverjum riðli HM í milliriðla. Ísland og Portúgal eru fyrirfram talin sterkustu liðin í F-riðli. Alsíringar stigu því stórt skref í átt að sæti í milliriðlakeppni HM með sigrinum á Marokkó. Næst mætir Marokkó Portúgal á laugardag en Alsír spilar við Ísland klukkan 19:30 á laugardagskvöld.