Umfangsmikil mafíuréttarhöld hefjast á Ítalíu í dag

13.01.2021 - 03:34
Mynd með færslu
Lögreglumenn við veitingastað í Pulheim í Þýskalandi þar sem glæpamanna var leitað. Mynd:
Vel á fjórða hundrað sakborninga og yfir 900 vitni taka þátt í stærstu réttarhöldum gegn mafíunni á Ítalíu í áratugi. Réttarhöldin tengjast 'Ndrangheta mafíunni og eru afrakstur margra ára rannsóknar. Þau hefjast í dag og eiga að líkindum eftir að standa yfir í rúm tvö ár að sögn fréttastofu BBC.

Alls eru 355 sakborningar í málinu, bæði mafíósar og spilltir embættismenn. Meðal ákæruatriða eru morð, eiturlyfjainnflutningur, fjárkúgun og peningaþvætti. Hefðbundinn dómsalur dugði ekki til þess að hýsa réttarhöldin, og var nýr reistur í gömlu úthringiveri í bænum Lamezia Terme í Calabria-héraði, hjarta 'Ndrangheta mafíunnar. 

Réttarhöld af viðlíka stærðargráðu hafa ekki verið haldin síðan fjölskyldur í Cosa Nostra mafíunni voru sóttar til saka í Sikiley á níunda áratugnum. Ólíkt þeim réttarhöldum er aðeins ein fjölskylda ábyrg fyrir málunum sem ákært er fyrir í þetta sinn. 

Á fundi dómara og lögmanna fyrir réttarhöldin tók yfir þrjár klukkustundir að lesa upp nöfn sakborninga. Á meðal þeirra eru stjórnmálamenn, lögreglumenn og aðrir embættismenn auk mafíósa. Efstur á lista yfir grunaða er Luigi Mancuso, 66 ára, meintur foringi Mancuso fjölskyldunnar. 

Athygli fjölmiðla og almennings beinist mest að saksóknaranum Nicola Gratteri. Hann hefur notið lögregluverndar í rúma þrjá áratugi vegna starfa sinna gegn mafíunni. Hann heitir því að losa Ítali við hina kæfandi 'Ndrangheta mafíu.