Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

„Þetta var sársaukalaust og gleðilegt“

„Bóluefnið frá Moderna er aðeins einfaldara í notkun en bóluefni Pfizer,“ segir framkvæmdastjóri hjúkrunar á heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. 500 framlínustarfsmenn fengu í dag fyrri skammtinn af bóluefni Moderna. 

Heldur ekki sérstaklega upp á daginn

Óskar Steindórsson, bráðatæknir hjá slökkvliðinu, var ánægður að fá sprautuna. „Þetta var bara sársaukalaust, gleðilegt. Þetta mun breyta miklu um leið og þetta fer að virka, þá getur maður verið áhyggjulausari, þó svo að maður þurfi alltaf að gæta að sóttvörnum, huga að handþvætti og slíku.“

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Óskar Steindórsson.

Honum finnst hann hafa verið mjög útsettur fyrir smiti við störf sín. „Við höfum alltaf verið með þetta á bak við eyrað frá því fyrsta bylgjan skall á. Við erum náttúrulega svokallað framlínustarfsfólk í þessu, eins og lögreglan, erum alltaf inni á heimilum fólks og að sinna þessum störfum sem fólkið á bráðamóttöku er að sinna, bara úti í þjóðfélaginu, við lítum svoleiðis á þetta,“ segir Óskar Steindórsson, hann stefndi ekki að því að halda sérstaklega upp á daginn, sagðist bara ætla aftur í vinnuna. 

Minni áhyggjur af því að smita aðra

Áslaug Ellen Yngvadóttir, starfsmaður í Farsóttarhúsinu við Rauðarárstíg, segist finna fyrir létti. „Við getum alltaf borið smit út fyrir húsið þannig að við verðum bara með alveg sama verklag og áður en þetta er samt ótrúlega frábært því þetta er svo mikill léttir fyrir mig að ég geti ekki sjálf orðið veik og sýkt fjölskylduna mína, ég hef haft áhyggjur af því frá því ég byrjaði að vinna í farsóttarhúsinu því maður er náttúrulega í mjög miklu sambandi við covid inni í farsótt.“

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Áslaug Ellen Yngvadóttir.

Áslaugu fannst bólusetningin ekkert mál, aldrei þessu vant. „Það er frekar magnað því það líður stundum yfir mig í bólusetningum.“

Mikil undirbúningsvinna

Allir tuttugu starfsmenn farsóttarhússins við Rauðarárstíg fengu bólusetningu í dag og lögreglan og slökkviliðið ákváðu hvaða starfsmenn þeirra skyldu vera í forgangi. Bólusetningin hófst klukkan eitt og fór fram í Gamla orkuhúsinu við Suðurlandsbraut en áður en framlínustarfsfólkið streymdi í hús voru starfsmenn heilsugæslunnar búnir að vinna heilmikla undirbúningsvinnu; taka á móti bóluefninu verðmæta, afþýða það, velta því varlega í höndum sér og draga það í sprauturnar, nákvæmlega rétt magn.

Meðfærilegra efni

Bóluefni Moderna er keimlíkt efninu frá Pfizer, mRNA-bóluefni, en hjá Moderna eru tíu skammtar í hverju glasi í stað fimm hjá Pfizer og svo þarf ekki að blanda það með saltvatni eins og bóluefni Pfizer. Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir þetta gera það að verkum að bóluefni Moderna sé aðeins meðfærilegra. „Þetta er svona aðeins einfaldara það þarf bara að draga þetta upp.“

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir.

Kappsamir hjúkrunarfræðingar

Framkvæmdin sjálf var líka þaulskipulögð, búið að raða upp lánsstólum úr Valsheimilinu um allt húsið. Eftir bólusetningu þarf fólk að sitja kyrrt í kortér, ef ske kynni að það fái ofnæmisviðbrögð. Það þarf því töluvert pláss þegar mikill fjöldi er bólusettur í einu. „Það er alveg fyrirfram ákveðið hvað það fara margir í hvert rými og svo þegar það er búið að fylla hvert rými þá er því lokað og þá hefst bólusetning og svo koll af kolli þannig erum við að reyna að ná sem mestu flæði í gegnum húsið á sem stystum tíma.“
 
Það tók um þrjár klukkustundir að bólusetja þessa 500 framlínustarfsmenn og það má segja að það hafi verið kapp í hjúkrunarfræðingunum sem komu að bólusetningunni að gera þetta sem best og hraðast, enda þarf allt að ganga smurt, ef og þegar stærri skammtar koma og enn fleiri þurfa bólusetningu í einu. Stefnt er að því að bólusetja stærri hópa í skólum og þá nýtist verklagið frá í dag.

 

Starfsmenn Landakots bólusettir á morgun eða hinn

Þeir sjöhundruð skammtar sem eru eftir af fyrstu sendingu bóluefnis Moderna verða gefnir framlínustarfsmönnum á Landspítala, þeir fá bólusetningu á morgun og hinn. Þetta eru fyrst og fremst starfsmenn fimm öldrunardeilda spítalans. þar á meðal deildanna á Landakoti og Vífilsstöðum. Ráðgert er að næsti skammtur frá Moderna komi til landsins eftir tvær vikur og skammtarnir komi svo hálfsmánaðarlega.