„Þetta er svolítið eins og skák“

Mynd: Mummi Lú / RÚV

„Þetta er svolítið eins og skák“

13.01.2021 - 15:00
Guðmundur Guðmundsson segir það ekki ólíkt skák að undirbúa lið undir sama andstæðinginn þriðja leikinn í röð. Það séu alltaf einhver atriði sem megi betur fara. Ísland mætir Portúgal í fyrsta leik HM í Egyptalandi annað kvöld.

 

Guðmundur hefur, ásamt aðstoðarþjálfurum sínum, legið vel yfir leikjunum tveimur við Portúgal í undankeppni EM. Liðin mætast í fyrsta leik HM í Egyptalandi annað kvöld.

„Við erum búnir að finna ákveðna hluti sem við teljum henta best á þá, sóknarlega. Við erum að fara að æfa það í dag og erum búnir að vera að greina þetta alveg hægri vinstri,“ sagði Guðmundur í Kaíró í dag áður en íslenska liðið hélt til æfingar.

Hann segir liðið gera smá áherslubreytingar á varnarleiknum líka eftir að hafa séð aðeins hvað portúgalska liðið lagði áherslu á sóknarlega á sunnudaginn var. Guðmundur segist hafa dregið lærdóm af báðum leikjunum við Portúgal en ívið meira af síðar leiknum.

„Þetta gengur svolítið út á það að við sjáum hvað þeir eru að leggja áherslu á, hvað eru þeir að reyna, hvað eru þeir að spila og við erum að bregðast við því.“

„Þetta er svona svolítið eins og að spila skák, þetta er þannig,“ segir Guðmundur.

Allir heilir og klárir í slaginn.

Guðmundur segir Alexander Petersson vera búinn að jafna sig af sínum meiðslum og það líti vel út með hann. 20 leikmenn eru með liðinu í Kaíró en Guðmundur má skrá 16 til leiks. Hann segir ekkert liggja á að tilkynna endanlega hópinn.

„Allavega ekki fyrr en í fyrramálið, sko. Við viljum fara í gegnum æfinguna og sjá hvernig það gengur og síðan sjá hvort menn séu ekki ferskir í fyrramálið. Við tökum okkur þann tíma sem við höfum í það. Núna höfum við meiri tíma til að tilkynna liðið og við tökum okkur allan þann tíma sem við getum.“

Hann viðurkennir að hafa fengið smá hausverk yfir valinu eftir góða frammistöðu margra leikmanna.

„Þannig á það að vera. Við erum svona með nokkuð skýra mynd af því hvaða 16 leikmenn munu spila leikinn á morgun.“

Leikur Íslands og Portúgal er klukkan 19:30 annað kvöld og er í beinni útsendingu RÚV og Rásar 2. Upphitun hefst í HM stofunni á RÚV klukkan 19:15.

 

Tengdar fréttir

Handbolti

„Allir komnir með ógeð hver á öðrum“

Handbolti

„Breytist ekkert þótt ég sé með eitthvað band“

Handbolti

„Búið að afpanta flugið mitt til Íslands“