Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

„Þetta er hreinn úrslitaleikur fyrir bæði lið“

Mynd: RÚV / RÚV

„Þetta er hreinn úrslitaleikur fyrir bæði lið“

13.01.2021 - 16:20
Alexander Peterson, landsliðsmaður í handbolta, hefur jafnað sig á höfuðhöggi og er klár í slaginn fyrir leikinn mikilvæga gegn Portúgal á HM í Egyptalandi á morgun. Alexander segir að um gríðarlega mikilvægan leik sé að ræða fyrir bæði lið.

„Fyrir mér er þetta bara hreinn úrslitaleikur fyrir okkur og Portúgal líka,“ segir Alexander en lið á HM taka stig með sér í milliriðla gegn andstæðingum sem fara líka í milliriðla. 

Ísland og Portúgal eru tvö sterkustu liðin í riðlinum en ásamt þeim eru Alsír og Marokkó í F-riðlinum. Þrjú af þessum liðum komast áfram í milliriðla. 

„Við viljum vinna þennan leik og taka fjögur stig með okkur í milliriðil,“ segir Alexander en hann fékk þungt höfuðhögg í fyrri leiknum við Portúgal í undankeppni EM fyrir viku. Af þeim sökum tók hann ekki þátt í níu marka sigrinum á Portúgal á sunnudag. 

„Ég held bara að ég sé kominn aftur af stað. Ég er alltaf klár,“ segir Alexander að lokum. 

Leikur Íslands og Portúgal verður sýndur beint á RÚV annað kvöld og hefst útsending klukkan 19:15.