Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Smitið á hjartadeild var líklega gamalt

Mynd með færslu
 Mynd: Landspítalinn
Sóttkví hefur verið aflétt af hjartadeild Landspítala eftir að skimun á meirihluta starfsmanna deildarinnar sýndi að enginn hafði smitast. Starfsemi deildarinnar er nú með eðlilegum hætti, en öllum innlögnum, valkvæðum aðgerðum og göngudeildarheimsóknum var frestað eftir að sjúklingur þar greindist COVID-jákvæður  við hefðbundna öryggisskimun fyrir útskrift.

Í fréttatilkynningu frá spítalanum segir að þetta hafi verið alvarlegur atburður í starfsemi Landspítala og viðbragðið í kjölfarið umfangsmikið, útbreitt og viðeigandi.

Um 200 starfsmenn hafa verið skimaðir, flestar niðurstöður liggja fyrir, en niðurstöður úr öllum berast síðar í dag. Allir sjúklingar deildarinnar voru skimaðir í gærkvöldi og greindist enginn þeirra jákvæður.

Í tilkynningu frá Landspítala segir að umræddur sjúklingur hafði tvisvar sýnt neikvæða svörun áður en þessi jákvæða svörun barst. „Slíkt getur gerst vegna ýmissa ástæðna; til dæmis breytinga á sýnatöku og þróun sjúkdómsins í viðkomandi. Skimun er hins vegar framkvæmd óháð grun í öryggisskyni með stroki og er hraðunnin; svar berst jafnan innan 3-4 klukkustunda. Sjúklingar eru skimaðir með reglubundnum hætti. Viðkomandi reyndist síðan hár í mótefnamælingu við blóðprufu, sem mælir með nákvæmri rannsókn grun um eldra smit vegna jákvæðrar niðurstöðu af skimun. Að öllum líkindum er því um eldra smit að ræða í viðkomandi sjúklingi, sem hann hefur fengið áður en hann lagðist inn á Landspítala í desember,“ segir í tilkynningunni.