Skakkir hvatar á tímum atvinnuleysis

Mynd: Aðsend mynd / Aðsend mynd

Skakkir hvatar á tímum atvinnuleysis

13.01.2021 - 15:39

Höfundar

Í samráðsgátt stjórnvalda eru til umsagnar drög að frumvarpi til breytinga á lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi. Fjölmargar umsagnir hafa borist, meðal annars frá Samtökum iðnaðarins og Sambandi íslenskra kvikmyndaframleiðenda sem telja að frumvarpið verði til þess að skerða samkeppnishæfni kvikmyndaiðnaðar á Íslandi.

Sigríður Mogensen er sviðstjóri hugverkasviðs Samtaka iðnaðarins og hún gerir alvarlegar athugasemdir við breytingatillögurnar. „Helsta athugasemdin er sú, að nú er verið að afmarka talsvert hvað fellur undir framleiðslukostnað við kvikmynda- og sjónvarpsþáttaframleiðslu. Með þeim hætti að við teljum að það muni hafa þau áhrif að framleiðslufyrirtæki munu ekki lengur sjá sér hag í því að vera með fastráðið starfsfólk,” segir Sigríður í Morgunútvarpinu á Rás 2. 

Fjölmörg íslensk framleiðslufyrirtæki hafa ráðið til sín starfsfólk í heilsársstörf. Verði frumvarpið samþykkt í óbreyttri mynd fá fyrirtækin ekki lengur endurgreiðslu vegna þátttöku fastráðins starfsfólks. „Það mun þýða að framleiðslufyrirtækin munu sjá sér hag í því að segja upp þessu starfsfólki og ráða þau til baka sem verktaka til þess að fullnýta kosti kerfisins. Þetta eru skakkir hvatar, sérstaklega á tímum atvinnuleysis,” segir Sigríður.

Sigríður tók dæmi um fyrirtæki sem hefur klippara, framleiðendur og fleiri í föstu starfi sem vinna við ólík verkefni innan fyrirtækisins. Ef stórt erlent verkefni kemur til landsins, til dæmis framleiðsla á sjónvarpsseríu þá er fjárhagslega skynsamlegt að ráða inn verktaka í verkefnið, frekar en að nýta fastráðið starfsfólk, til þess að eiga rétt á endurgreiðslu. Telur Sigríður að þetta geti leitt til gerviverktöku.  

„Ég er ekki viss um að ráðuneytið hafi gert sér grein fyrir þessum áhrifum og ég efast um að þetta sé markmiðið. Það væri mjög slæmt ofan í núverandi ástand að sjá uppsagnir í kvikmyndaiðnaðinum,” segir Sigríður. Hún bendir á að breytingar gætu skert samkeppnishæfni Íslands á sviði kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerðar enda hörð alþjóðleg samkeppni um stærstu verkefnin. 

„Nýlega var gefin út kvikmyndastefna til ársins 2030. Hún er einmitt í þessa átt, að það þurfi að efla kvikmyndagerð enn frekar. Þetta er heldur ekki í samræmi við markmið hennar,” segir Sigríður.