Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Segir skimunina hafa bjargað lífi sínu

13.01.2021 - 19:26
Mynd: RÚV / RÚV
Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að fresta þeirri ákvörðun að hefja skimun fyrir brjóstakrabbameini fyrst við fimmtíu ára aldur, tíu árum síðar en nú er gert. Kona sem var fertug er hún greindist með krabbamein segir skimunina hafa bjargað lífi sínu.

Breytingunum er frestað um ótiltekinn tíma þar sem ráðuneytið telur að kynna þurfi þær betur. Hins vegar stendur óbreytt sú ákvörðun að hækka efri mörk aldursviðmiðanna úr 69 árum í 74 ár.

Breytt fyrirkomulag hefur verið harðlega gagnrýnt og hafa um 33 þúsund manns skorað á ráðherra að tryggja að konur verði áfram boðaðar í skimun þegar þær verða 40 ára. 

Heilbrigðisráðherra segist hvorki hafa forsendur né ástæður til að draga í efa mat sérfræðinga skimunarráðs, sem telja að skaðsemi hafi verið meiri en nytsemi í skimun þessa aldurshóps, og nefna í því samhengi ofgreiningar, ofmeðhöndlun og að skimanir geti veitt falskt öryggi.

Anna Lára Magnúsdóttir greindist með brjóstakrabbamein í sinni fyrstu skimun árið 2012, þá fjörutíu ára. „Ég fór algjörlega grunlaus í þessa myndatöku. Hafði ekki fundið neitt sjálf og var sem sagt greind þar,“ segir Anna.

Hnútur fannst í vinstra brjósti og þurfti hún í kjölfarið að fara í brjóstnám. „Þá kom í ljós að það voru tveir aðrir hnútar í brjóstinu. Sem sagt þrír hnútar og fjórði að myndast og ég var líka komin með mein í einn eitil undir holhönd. Þetta var ekki staðbundið, þetta var komið í fjóra hnúta og komið út í holhönd og hefði þá farið út í blóðrásina og haldið áfram að dreifa sér,“ segir Anna.

Við tók lyfjameðferð í sex mánuði og síðan töflumeðferð í fimm ár. Hún segir að meðferðin hafi verið átakanleg.

„Nú er þetta ferli allt saman búið. Vonandi að eilífu en maður veit aldrei. En þessi myndataka skipti öllu. Hún bara bjargaði lífi mínu því ég fann ekki neitt. Ég hefði þá ekkert farið fyrr en eftir tíu ár eða þá þegar ég hefði verið komin með meinvörp einhvers staðar í önnur líffæri. Þannig ég var mjög slegin þegar ég frétti það að það ætti að seinka þessu um tíu ár,“ segir Anna.