Öruggt hjá Val í endurkomu Helenu

Mynd með færslu
 Mynd:

Öruggt hjá Val í endurkomu Helenu

13.01.2021 - 22:01
Valskonur unnu öruggan sigur á Skallagrími í Dominos-deild kvenna í körfubolta í kvöld, 91-58. Heil umferð var leikin í deildinni í kvöld, en meira en þrír mánuðir eru síðan leikið var síðast í deildinni vegna aðgerða yfirvalda í baráttunni gegn kórónuveirunni.

Helena Sverrisdóttir spilandi aðstoðarþjálfari Vals missti af fyrstu leikjum Vals í haust áður en hið langa keppnishlé var gert á deildinni. Hún eignaðist sitt annað barn 3. desember, en var mætt til leiks með Val í kvöld. Hún var meira að segja í byrjunarliðinu og skoraði 7 stig, tók 8 fráköst og gaf 6 stoðsendingar.

Kiana Johnson var stigahæst Valskvenna í kvöld með 19 stig, Hallveig Jónsdóttir skoraði 15 stig og Ásta Júlía Grímsdóttir 14 stig og tók 9 fráköst. Ásta hefur verið frá vegna meiðsla í rúmt ár og kemur greinilega aftur inn af krafti.

Haukar unnu Fjölni, 70-54. Snæfell hafði betur á móti KR, 87-75 og Keflavík vann Breiðablik, 66-56.

Keppni í Dominos-deild karla í körfubolta hefst svo annað kvöld á ný eftir þetta rúmlega þriggja mánaða keppnishlé.