Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Mikilvægt að fá svör frá Pfizer og BioNTech sem fyrst

Þórólfur og bóluefni
 Mynd: RÚV - Samsett mynd
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að það myndi ekki hafa áhrif á mögulega rannsókn lyfjaframleiðandans Pfizer og BioNTech hér á landi á áhrifum kórónuveirubóluefnis þó að hluti þjóðarinnar hafi fengið bóluefni frá öðrum framleiðanda, svo framarlega að rannsóknin hefjist innan tíðar. Í dag var byrjað að bólusetja með bóluefni Moderna og hann segir ekki komið á hreint hvort af rannsókninni verði.

 

„Eins og staðan er núna þá skiptir það ekki miklu máli vegna þess að þetta er svo lítill hluti þjóðarinnar sem er bólusettur með bóluefni Pfizer eða Moderna. Ef hins vegar stór hluti þjóðarinnar væri nú bólusettur með margskonar bóluefni þá held ég að menn myndu hugsa um hvort það myndi svara þeim spurningum sem menn hafa um svona útbreidda bólusetningu og árangurinn af henni. Við erum ekki komin á þann stað ennþá,“ segir Þórólfur.

Hann segir mikilvægt að fá svör frá Pfizer  og BioNTech sem fyrst. „Það þarf að skýrast sem fyrst. Við höldum bara okkar striki varðandi bólusetningu með þeim bóluefnum sem okkur bjóðast.“  

Hefur eitthvað skýrst með áframhaldandi afhendingu bóluefna - hvernig verður með afhendingu frá Moderna eftir mars? „Nei. Við erum ekki búin að fá neina afhendingaráætlun, hvorki frá Pfizer né Moderna eftir mars.“