Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Léttir að fá bólusetningu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Freyr Arnarson - RÚV
Það er ákveðinn léttir að fá bólusetningu segir Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður farsóttarhúss Rauða krossins. Starfsmenn hússins og fleiri framlínustarfsmenn verða bólusettir í dag með efninu sem kom frá Moderna í gær.

Moderna lagði blessun sína yfir dreifingu og bólusetningu í gær eftir að búið var að fara yfir gögn frá Distica um flutning efnisins. Tólfhundruð skammtar komu til landsins. Heilsugæslan byrjar að bólusetja með efninu eftir hádegi og á að bólusetja, heilbrigðisstarfsfólk, sjúkraflutningamenn, lögreglu, sjö starfsmenn farsóttarhússins, öryggisverði þar og hótelstarfsmenn sem sjá um þrif og annað í farsóttarhúsinu.

Gylfi segir að bólusetningin tryggi öryggi starfsmannanna gegn veirunni. „Við þurfum náttúrlega að passa okkur. Við getum náttúrlega borið veiruna með okkur út úr húsi. Þannig að við þurfum að fara eins varlega eftir þetta eins og áður. Þannig að við þurfum að sinna öllum sóttvörnum að sjálfssögðu og fara í galla og grímur og allt það. En þetta aðallega verndar okkur gegn veirunni þannig að við munum ekki veikjast vonandi.“ 

Sextíu og sjö gestir eru í farsóttarhúsinu og af þeim eru 45 í einangrun. Gylfi segir að ekki margir sinni sjúklingum sem þar dvelja. „Þannig að ef einhver skyldi hafa veikst þá hefði verið erfitt að halda starfsseminni áfram án þess að nýta okkur sjálfboðaliða Rauða krossins og stefna þá kannski fleirum í hættu á að sýkjast. Þannig að í okkar huga er þetta ákveðinn léttir það er ekki hægt að segja annað.“