Lagaleg óvissa um aðgerðir í miðjum heimsfaraldri

13.01.2021 - 22:22
Mynd: Almannavarnir / Almannavarnir
Sóttvarnalæknir segir að ljúka hefði þurft endurskoðun á sóttvarnalögum fyrir áramót. Hann telur mjög slæmt að lagaleg óvissa ríki um sóttvarnaaðgerðir í miðjum heimsfaraldri. Nýgengi landamærasmita er nú 25,9, sem er þó nokkuð hærra en innanlands þar sem það er átján. Flestir þeirra sem hafa greinst undanfarið hafi verið að koma frá Póllandi.

„Við höfum lagt mikið á okkur hjá almannavörum og hjá sóttvarnalækni að reyna að koma skilaboðum inn í þennan hóp sérstaklega. Við erum með túlka á öllum okkar upplýsingafundum og við erum með sérstaka tengiliði inn í þessa hópa til að reyna að koma þessum skilaboðum áleiðis,“ segir Þórólfur.

Hann hyggst leggja til að farþegar verði krafðir um neikvætt COVID-19 próf við komuna til landsins, þar sem hvorki er talin lagagrundvöllur fyrir því að skylda fólk í sýnatöku, né fólk í sóttkví sem neitar að fara í skimun.

Þórólfur telur að ljúka hefði þurft endurskoðun á sóttvarnalögum fyrr. Hefði það verið gert fyrir áramót væri lagastoð fyrir þeim tillögum sem hann lagði fram í síðustu viku.

„Það er mjög slæmt að vera með svona lagalega óvissu um ýmsar aðgerðir sem við erum að grípa til og ráðleggingar og því um líkt. Það er bara ekki nógu gott í svona ástandi, í miðjum heimsfaraldri, að hafa stöðuna þannig, þannig ég hefði svo sannarlega viljað að þetta hefði verið klárað fyrir áramótin,“ segir Þórólfur.