Hlutfall jákvæðra sýna á landamærum 2,9 prósent

13.01.2021 - 16:11
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
2,9 prósent af þeim sýnum sem voru tekin á landamærum í gær, í fyrri og seinni skimun, reyndust jákvæð. Svo hátt hefur hlutfallið ekki verið síðan í lok nóvember þegar það var 3,6 prósent en hæst mældist það þann 26. október, 4,9 prósent.

Nýgengi landamærasmita er nú 25,9, þó nokkuð hærra en innanlands þar sem það er 18. Fjórtán þeirra sem greindust á landamærunum í gær bíða enn eftir niðurstöðu úr mótefnamælingu. Að minnsta kosti tíu smitanna eru virk, sex í fyrri skimun og fjögur í seinni skimun. 

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði fyrr í dag að fjöldi smita á landamærunum endurspeglaði stöðu faraldursins víða um heim. Í gær var tilkynnt um fleiri dauðsföll á einum degi af völdum COVID-19 í Bandaríkjunum en nokkru sinni fyrr og álagið á breska heilbrigðiskerfið er slíkt að Matt Hancock, heilbrigðisráðherra landsins, sagði í dag að nú væri til skoðunar að færa sjúklinga af spítölum yfir á hótel. Japönsk stjórnvöld lýstu í dag yfir neyðarástandi í landinu vegna hraðrar útbreiðslu farsóttarinnar og í Kína hafa ekki greinst jafnmörg smit og í dag síðan í júlí. 

Stjórnvöld hér á landi kynna nýjar sóttvarnaaðgerðir á landamærum í þessari viku og Þórólfur sagði í dag mikilvægt að leita allra leiða til að koma í veg fyrir að smit bærist til landsins. Nú væri til skoðunar að skylda fólk til að framvísa vottorði upp á neikvætt COVID-próf á landamærunum, eins og hefur til dæmis verið gert í Bretlandi og Danmörku.

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV