
Hlutfall jákvæðra sýna á landamærum 2,9 prósent
Nýgengi landamærasmita er nú 25,9, þó nokkuð hærra en innanlands þar sem það er 18. Fjórtán þeirra sem greindust á landamærunum í gær bíða enn eftir niðurstöðu úr mótefnamælingu. Að minnsta kosti tíu smitanna eru virk, sex í fyrri skimun og fjögur í seinni skimun.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði fyrr í dag að fjöldi smita á landamærunum endurspeglaði stöðu faraldursins víða um heim. Í gær var tilkynnt um fleiri dauðsföll á einum degi af völdum COVID-19 í Bandaríkjunum en nokkru sinni fyrr og álagið á breska heilbrigðiskerfið er slíkt að Matt Hancock, heilbrigðisráðherra landsins, sagði í dag að nú væri til skoðunar að færa sjúklinga af spítölum yfir á hótel. Japönsk stjórnvöld lýstu í dag yfir neyðarástandi í landinu vegna hraðrar útbreiðslu farsóttarinnar og í Kína hafa ekki greinst jafnmörg smit og í dag síðan í júlí.
Stjórnvöld hér á landi kynna nýjar sóttvarnaaðgerðir á landamærum í þessari viku og Þórólfur sagði í dag mikilvægt að leita allra leiða til að koma í veg fyrir að smit bærist til landsins. Nú væri til skoðunar að skylda fólk til að framvísa vottorði upp á neikvætt COVID-próf á landamærunum, eins og hefur til dæmis verið gert í Bretlandi og Danmörku.