Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Heimamenn með sigur í fyrsta leik HM í Egyptalandi

Mynd: EPA-EFE / REUTERS POOL

Heimamenn með sigur í fyrsta leik HM í Egyptalandi

13.01.2021 - 18:30
Egyptar byrja HM karla í handbolta vel á heimavelli. Þeir unnu nokkuð þægilegan sigur á Chile í upphafsleik mótsins, 35-29. Liðin spila í G-riðli heimsmeistaramótsins.

Egyptar sem eru ríkjandi Afríkumeistarar og jafnbesta lið þeirrar heimsálfu í síðustu áratugi byrjuðu leikinn betur. Chilebúum gekk best í sókninni þegar þeir komu boltanum inn á línumanninn sinn Esteban Salinas sem var drjúgur í markaskorun þar. Egyptar voru sem áður segir sterkari í byrjun og komust fimm mörkum yfir í stöðunni 8-3.

Yehia Elderaa skoraði fimm mörk fyrir Egypta í fyrri hálfleik og var þeirra besti maður í sókninni. Heimamenn voru mun sterkari og komust átta mörkum yfir í fyrri hálfleiknum í 18-10. Sjö mörkum munaði í hálfleik, 18-11.

Egyptar náðu svo mest níu marka forystu í seinni hálfleik og fóru í kjölfarið að dreifa leikálaginu. Það varð til þess að Chile komst í gang og náði að minnka muninn niður í fimm mörk. Nær komst Chile þó ekki og Egyptar unnu að lokum sex marka sigur, 35-29.