Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Heilsugæslan sér um sýnatöku og vottorð vegna ferðalaga

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Þeim sem þurfa að fara í skimun vegna utanlandsferða, til dæmis til Bretlands og Danmerkur, er ráðlagt að hafa samband við sína heilsugæslustöð. Heilsugæslan sér um sýnatöku og gefur út vottorð fyrir ferðalanga sem þurfa að framvísa slíkum á landamærum.

Gott er að hafa samband tímanlega til að tryggja að skimunin fari fram innan þess tímaramma sem reglur í hverju landi kveða á um. Þetta segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, í samtali við fréttastofu.

Þarf að framvísa vottorði í Bretlandi og Danmörku

Frá og með föstudeginum 15. janúar þurfa allir farþegar, 11 ára og eldri, sem ferðast til Bretlands að sýna fram á neikvætt COVID-19 próf fyrir brottför. Prófið má ekki vera eldra en 72 tíma við komuna til landsins. Þetta á einnig við um þá sem eru með mótefna- og bólusetningarvottorð og farþega sem eingöngu millilenda í Bretlandi.

Sambærilegar reglur hafa gilt í Danmörku frá 9. janúar en þar krefjast yfirvöld þess að komufarþegar framvísi vottorði um neikvæða niðurstöðu á COVID-19-prófi sem var gert innan 24 klukkustunda, en ekki 72 eins og í Bretlandi. Þeir farþegar sem hafa sýkst af COVID-19 geta framvísað vottorði um jákvæða niðurstöðu á skimun sem var gerð 14 dögum til átta vikum fyrir brottför.

Stilla upp sýnatöku í samráði við heilsugæslustöð

„Það er gott að fá ráðgjöf til að stilla þessu upp,“ segir Ragnheiður Ósk. „Því svo þarf að bíða eftir svari og þetta þarf allt að gerast innan ákveðins tímaramma til þess að þetta sé tekið gilt,“ segir hún. Hún bætir við að hægt sé að leita til Læknavaktarinnar ef fólk fer með litlum fyrirvara til útlanda og þarf að nálgast vottorð um helgar þegar afgreiðslur á heilsugæslustöðvum eru lokaðar. 

Samtals kostar 12.895 krónur að fá skimun og vottorð. Einkennalaus sýnataka kostar 7 þúsund krónur og vottorðið kostar 5.895 krónur.