Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Covid, matarpakkar og hjólaferð

13.01.2021 - 20:33
Mynd: EPA-EFE / EPA
Covid heldur Bretlandi í heljargreipum en matarpakkar, bólusetning og hjólaferð forsætisráðherra setja líka sinn svip á pólitíska umræðu í landinu.

Magur matarpakki til efnalítilla fjölskyldna

Hugsum okkur matarpakka sem í er dós af bökuðum baunum, tvær kartöflur, tvær gulrætur, þrjú epli, nokkrar ostsneiðar, tveir bananar, tvær orkustangir, eitt niðursneitt brauð, svolítið pasta í poka, þrír litlir jógúrtdrykkir og einn tómatur. Þessi matarpakki á að duga í hádegismat í viku fyrir eitt barn.

Hvað er hægt að gera úr þessu? Jafnvel sá sem er vanur að elda getur vart ímyndað sér næringarríkan og ljúffengan mat úr þessum skammti. Líka af því það á ekki að þurfa að bæta neinu við til að útbúa máltíð úr honum.

Marcus Rashford berst fyrir bættum hag barna eins og hann var

Sagan af matarpakkanum snýst um aðstoð við efnalitlar fjölskyldur skólabarna. Breskir grunnskólanemendur fá hádegismat og hann er ókeypis fyrir fjölskyldur undir ákveðnum tekjumörkum. Fyrir sumarfríið í fyrra tók fótboltastjarnan Marcus Rashford upp málstað barna sem fá ókeypis skólamáltíðir: vegna veiruharðindanna ætti ríkisstjórnin að tryggja þeim mat í fríinu. Eins og hann lýsti í viðtali í júní er hann sonur einstæðrar móður með fimm börn og það bjargaði honum að fá ókeypis mat í skólanum.

Þetta er í gangi þegar krakkar ættu að vera að einbeita sér að náminu og þetta er enn svona, alveg galið að svo sé, ætti ekki að gerast, sagði Rashford. Stjórnin tók ábendingunni.

Ríkisstjórnin lét aftur undan herferð Rashfords í haust

Í haust taldi ríkisstjórnin óþarfi að halda þessum styrk áfram en lét á endanum undan þunganum af annarri herferð Rashfords sem tryggði þá ókeypis mat í fríum vetrarins.

Styrkurinn var í formi matarmiða, sem var hægt að framvísa í kjörbúðum. Í vetur vaknaði sá grunur að foreldrar freistuðust kannski til að kaupa áfengi og sígarettur fyrir miðana. Í ársbyrjun komu í stað miðanna matarpakkar sem ríkið kaupir af ýmsum fyrirtækjum.

Magrir matarkassar fyrir 5 pund sem fyrirtæki fá 30 pund fyrir

Í vikunni birti Rashford mynd frá einni móður af innhaldi umrædds matarkassa sem samkvæmt hennar útreikningi kostaði 5 pund og 22 pence úr búð en já, skammturinn á að vera fyrir 30 pund sem fyrirtækið fær. Á breskum félagsmiðlum hafa birst margar myndir af þessum ræfilslegu matarsendingum og svo hvað megi fá í kjörbúð fyrir heil 30 pund.

Stjórnarformaður með tengsl við Íhaldsflokkinn

Fyrirtækið, sem útvegaði áðurnefndan matarkassa heitir Chartwells, í eigu Compass Group sem var sektað um 18 milljónir Bandaríkjadala 2012 fyrir að hafa svindlað á matarkössum til skóla í New York. Umsvifamaðurinn Paul Walsh, nátengdur breska Íhaldsflokknum, var stjórnarformaður Compass þar til nýlega.

Forsætisráðherra þakklátur Rashford

Málið kom upp í fyrirspurnartíma forsætisráðherra í þinginu í dag þar sem hann tók undir að sendingarnar væru skammarlegar og móðgun við fjölskyldurnar, sem fengi þær. Fyrirtækið hefði lofað endurgreiðslu og hann væri þakklátur Marcus Rashford fyrir að benda á þetta.

Matarkassar ræddir, veiruhremmingin versnar

Matarkassaumræðan geisar meðan Bretar melta hremmingar veirufaraldursins þar sem allar tölur eru met háar. Á sjúkrahúsum í London er nánast neyðarástand. Þannig heyrði tíðindamaður Spegilsins af aldraðri konu, sem lærbrotnaði á sjúkrahúsi og átti þá að fara í sjúkrabíl á annað sjúkrahús. Hún beið í 13 tíma eftir sjúkrabíl, tekur venjulega 5 mínútur.

Erfiðasti tíminn er framundan: bólusetning má ekki ýta undir kæruleysi

Chris Whitty landlæknir Englands sagði í vikunni að næstu vikur yrðu þær erfiðustu í farsóttinni.

Samkvæmt áætlun sem stjórnin birti í vikunni á að vera búið að bólusetja 15 milljónir manna um miðjan febrúar og stefnt á að bráðlega verði bólusetningarstöðvar opnar allan sólarhringinn. En, eins og forsætisráðherra sagði á mánudaginn: það versta væri ef góður árangur í bólusetningum gerði menn kærulaus um farsóttina.

Forsætisráðherra og forréttindablinda, þar sem orðið er óþekkt

Samkvæmt farsóttarreglum í London má ekki sækja sér heilsubótarhreyfingu út fyrir nágrennið, miðað við fimm mílur, tæplega tíu kílómetra, en nei, ekki skrifaðar reglur. Það vakti því athygli að forsætisráðherra sást um helgina á hjóli við ólympíuleikvanginn í austurborginni, heilar sjö mílur frá Downing stræti. Er þetta brot? Nei, engar reglur brotnar, samkvæmt talsmanni sem vildi ekki upplýsa hvort forsætisráðherra hjólaði þangað eða fór í bíl í hjólaferðina. Leikvangurinn var byggður fyrir ólympíuleikana 2012, þegar Boris Johnson var borgarstjóri við meiri vinsældir og auðveldara líf en í núverandi embætti. Breta vantar þó hliðstæðu við íslenska orðið ,,forréttindablinda,“ til að ræða atvikið.