Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

„Breytist ekkert þótt ég sé með eitthvað band“

Mynd: Mummi Lú / RÚV

„Breytist ekkert þótt ég sé með eitthvað band“

13.01.2021 - 13:45
Arnór Þór Gunnarsson verður fyrirliði Íslands á HM í handbolta í Egyptalandi sem hefst í dag. Hann er ekki sá einu úr fjölskyldunni sem ber fyrirliðabandið en bróðir hans er eins og margir vita Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði í fótbolta. Arnór segir bróðir sinn hafa meðfædda leiðtogahæfileika en hann þurfi sjálfur að koma sér í það hlutverk.

„Breytist ekkert þótt ég sé með eitthvað band á hendinni“

Arnór var í viðtali í Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. Hann tók við fyrirliðabandinu af Aroni Pálmarssyni sem neyddist til að draga sig út úr hópnum vegna meiðsla. „Það er bara mikill heiður og ég er stoltur af því að bera fyrirliðabandið. Ég hef sagt það áður að maður er bara að reyna að gera sitt besta, hvort sem maður er fyrirliði eða ekki, bara að reyna að hjálpa liðinu. Það breytist ekkert þótt ég sé með eitthvað band á hendinni en auðvitað mikill heiður,“ sagði Arnór. 

Aron var leiðtogi frá fyrsta degi

Arnór segist ekki hafa nein ráð frá Aroni Einari, bróðir sínum  sem var þó stoltur fyrir hönd stóra bróður. „Aron er náttúrlega búinn að vera leiðtogi síðan hann fæddist. Hann stjórnaði þessu frá frysta degi, ég man eftir því frá því að við vorum litlir að hann stjórnaði þessu með harðir hendi. Hann er með þetta meðfætt í sér en ég þarf kannski að komast í þetta hlutverk svona hægt og bítandi.“

Aðstæður í Egyptalandi frábærar

Arnór hefur leikið yfir 100 landsleiki og farið á mörg stórmót en viðurkennir að þrátt fyrir góðar aðstæður sé mótið og undirbúningur þess býsna sérstakur. „Undir eðlilegum kringumstæðum höfðum við tekið þrjá til fjóra æfingarleiki fyrir stórmótin. Núna tókum við tvo leiki í undankeppni EM fyrir þetta mót. Auðvitað er þetta svolítið öðruvísi og svolítið skrítið. Aðstæðurnar eru frábærar, frábært hótel, góður matur, fólkið sem er að vinna hérna er mjög hjálpsamt. Við erum á risa hóteli með okkar hæð og okkar matsal og erum ekki að hitta annað fólk. Annars er bara allt frábært hérna í Kaíró og aðstæður til fyrirmyndar.“

Mótið byrjar í dag

Heimsmeistaramót karla í handbolta hefst í Egyptalandi í dag. Aðeins einn leikur er á dagskrá þennan fyrsta keppnisdag. Hann verður sýndur í beinni útsendingu á RÚV 2. Á morgun fer svo HM á fullt. Þá verða sjö leikir spilaðir og fjórir þeirra sýndir á rásum RÚV. Þar af viðureign Íslands og Portúgals kl. 19.30 annað kvöld. Sjá má yfirlit yfir beinar útsendingar frá HM í handbolta hér.

Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Gunnar M. Gunarsson, faðir þeirra bræðra

Tengdar fréttir

Handbolti

HM í dag: Egyptaland mætir Chile

Handbolti

Allir Íslendingarnir með neikvæð sýni

Handbolti

Fjórir íslenskir þjálfarar með lið á HM

Handbolti

Aron Gunnars mættur frá Katar til Malmö fyrir leikinn