Breytingu á neðra viðmiði brjóstaskimana frestað

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að fresta breytingum á aldursviðmiðum brjóstaskimana um óákveðinn tíma. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ráðuneytinu í dag. Þar segir að kynna þurfti betur þær breytingar sem fyrirhugaðar eru og fagleg rök að baki þeim.

Ráðgert er samkvæmt mati skimunarráðs embættis landlæknis að breyta skuli aldursviðmiðum brjóstaskimana þannig að skimanir hefjist ekki fyrr en við 50 ára aldur en að efri aldursmörkin hækki úr 69 árum í 74. Hingað til hafa konur niður í 40 ára fengið boð um að koma í brjóstaskimun.

Ákvörðun um að hækka efri mörk aldursviðmiðanna úr 69 árum í 74 ár stendur óbreytt. 

„Það er alveg ljóst af umræðum síðustu daga að þessa breytingu þarf að kynna betur og því hef ég ákveðið að fresta gildistöku þessarar breytingar varðandi skimun krabbameina í brjóstum,“ segir Svandís í tilkynningu.

Neðra viðmið milli 40 og 50 ára í nágrannalöndum

Tillaga um að hækka lægri aldursviðmiðin var fyrst lögð fram árið 2016 af hálfu embættis landlæknis og aftur á liðnu ári þar sem embætti landlæknis byggði á niðurstöðum skimunarráðs þess efnis. Í minnisblaði landlæknis kemur fram að í Svíþjóð byrjar skimun við 40 ára aldur en í Noregi, Danmörku og Finnland við 50 ára aldur. Hérlendis hefur verið miðað við 40 ára aldur. Þá miðar Evrópusambandið við 45 ára aldur í sínum leiðbeiningum. Skimunarráð ráðleggur hækkun á neðri aldursmörkum úr 40 í 50 ár

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segist hvorki hafa forsendur né ástæður til að draga í efa faglegt mat sérfræðinga skimunarráðs eða embættis landlæknis um aldursviðmið krabbameinsskimana. Aftur á móti sé þarna um nokkuð miklar breytingar að ræða varðandi neðri aldursviðmiðin sem skiljanlega veki ýmsar spurningar, ekki síst hjá þeim konum sem eiga í hlut.

Undirskriftasöfnun um að ráðherra endurskoði breytingarnar

Rúmlega 32 þúsund hafa skrifað undir undirskriftalista á change.org á tveimur dögum þess efnis að biðja heilbrigðisráðherra að endurskoða fyrirhugaðar breytingar á reglum um brjóstaskimanir. Margar konur sem greinst hafa með brjóstakrabbamein fyrir fimmtugt hafa stigið fram á samfélagsmiðlum til þess að vekja athygli á málstaðnum.

Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV